Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Þriðjudagur 21. ágúst 2001 kl. 10:21

Listasafn á veitingastað

Glóðin hefur nú opnað aftur eftir tímabundna lokun fyrr í mánuðinum. Eigendur Glóðarinnar, Ásbjörn Pálsson og Bjarni Sigurðsson hafa unnið hörðum höndum að breytingum á staðnum. Breytingar hafa staðið yfir frá því um áramót en lauk núna um helgina þega eldhús staðarins var fullklárað. Erfiðleikar í rekstri hafa gerðu vart við sig en þeir félagar hafa gert samninga við skuldaeigendur auk þess sem þeir drógu sig út úr Hótel Kelfavík.

Áfram Glóðin
Síðustu vikur hafa verið erfiðar fyrir eigendur Glóðarinnar en staður lokaði í þrjár vikur en er nú kominn aftur af stað. „Við höfum gengið frá okkar málum. VIð vildum halda Glóðinni áfram og ekki fara út í eitthvað kennitölubrask þó það hefði líklega verið auðveldara“, segir Ási. Viðbrögð viðskiptavina hafa verið mjög jákvæð og þeir félagar hafa orðið varir við góðan meðbyr hjá bæjarbúum. Á daginn eru þrír starfsmenn á staðnum, Ási, Bjarni og unnusta Bjarna, Anna Soffía en þegar mikið er um að vera er stór hópur tilbúinn til að aðstoða. „Við erum með frábært starfsfólk hjá okkur sem stóð með okkur á erfiðum tímum og þau eiga þakkir skilið.“

Landsliðsmenn í matreiðslu
„Við erum að fara í gang aftur og höfum staðið í miklum breytingum að undanförnu“, segir Ásbjörn en hann og Bjarni sjá um eldamennsku á staðnum. Viðskiptavinir geta átt von á góðu því báðir eru þeir landsliðsmenn í matreiðslu. „Við erum komnir með nýjan og glæsilegan matseðil en aðalréttir Glóðarinnar eru sem áður fiskréttir auk þess sem boðið er upp á lambakjöt að íslenskum hætti“, segja kokkar staðarins. En það er ekki matseðillinn sem hefur tekið breytingum heldur hefur verið unnið að því að undanförnu að hressa upp á útlit staðarins auk þess sem nýr vínlisti verður á boðstólnum innan skamms.

Staðurinn hefur færst upp um klassa
Þegar blaðamaður leit við á Glóðinni héngu myndir Reynis Katrínar á veggjum staðarins. Í hverjum mánuði er nýr listamaður með sýningu á Glóðinni en Reynir sér um að útvega listamenn. „Það eru aldrei tómir veggir hjá okkur“, segir Bjarni og Ási bætir við að það sé vissulega gaman að sjá ný verk í hverjum mánuði. „Poppminjasafnið var barn síns tíma og kominn tími til að bjóða upp á eitthvað nýtt.“ Í haust verður síðan koníaksstofan stækkuð þannig að viðskiptavinir geta haft það notalegt fyrir eftir máltíð. Gestir geta síðan búist við algjörlega nýju útliti á salernisaðstöðu staðarins og á næsta ári verður inngangur og framhlið hússins endurnýjuð. „Kúnnar okkar hafa verið mjög ánægðir með breytingarnar. Það má eiginlega segja að staðurinn hafi færst upp um klassa.“

Erfitt og krefst mikillar alúðar
Að reka veitingastað í þeim klassa sem Glóðin er getur verið erfitt utan Reykjavíkursvæðisins. „Það er vel grundvöllur fyrir rekstri veitingahúss í Keflavík en það krefst mikillar alúðar“, segir Ási. „Ég get auðvitað ekki neitað því að maður hefur hugsað til þess að hefja rekstur í Reykjavík. En okkur þykir vænt um Glóðina og viðskiptavinir okkar eru ánægðir“, segir Ási og Bjarni tekur undir það. Viðskiptavinir Glóðarinnar eru misjafnir eins og þeir eru margir og margir hverjir mjög kröfuharðir en Ási og Bjarni gera sitt besta til að standa undir væntingum. „Við vonumst til þess að sjá sem flesta í þessu listagallerý sem staðurinn er orðinn“, segja Ási og Bjarni að lokum. Glóðin er opin alla virka daga í hádeginu og frá kl. 17:30 til 22:00 og til kl. 23 á föstudögum og laugardögum. Á sunnudögum er opið frá kl. 17:30 til 22:00.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024