LÍFSVAL ER GÓÐUR KOSTUR
Mikið hefur verið rætt og ritað um þann möguleika einstaklinga að verja 2% viðbótariðgjaldi af launum í frjálsan lífeyrissparnað og draga þá upphæð frá skattskyldum tekjum. Ýmsar spurningar hafa vaknað hjá fólki um þetta nýja sparnaðarform. Hér vil ég svara nokkrum þeirra í stuttu máli.Þessi nýja leið í lífeyrissparnaði hefur vakið fólk almennt til umhugsunar um sparnað og er það eitt og sér af hinu góða. Ávöxtun þessa sparnaðar er sérstaklega góð því að á móti 2% framlagi launþega kemur 0,2% framlag atvinnurekenda sem þýðir strax 10% ávöxtun. Enginn fjármagnstekjuskattur er greiddur af ávöxtuninni, en við útborgun reiknast tekjuskattur á alla upphæðina. Það er rétt að árétta það að fólk er ekki að sleppa við tekjuskattinn heldur er aðeins verið að fresta skattgreiðslunni. Fólk getur valið úr fjöldanum öllum af vörsluaðilum sem eru í stakk búnir að taka við þessum sparnaði. Hjá Sparisjóðnum höfum við þrjá valkosti sem við nefnum Lífsval. Fyrst er að nefna Lífeyrisreikning Sparisjóðsins, sem er verðtryggður hávaxtareikningur með öruggri ávöxtun. Í öðru lagi bjóðum við upp á Lífeyrissjóðinn Einingu og síðastan skal nefna Séreignasjóð Kaupþings.Síðarnefndu valkostirnir eru áhættusjóðir sem gefa möguleika á hárri ávöxtun til lengri tíma litið.Það er einstaklingurinn sjálfur sem hefur frumkvæði í þessu máli og mjög auðveldan hátt er hægt að ganga frá samningi um viðbótarlífeyrissparnað. Það þarf aðeins að setja sig í samband við þjónustufulltrúa í Sparisjóðnum sem gengur frá samningi. Samningur er síðan sendur launagreiðanda og í hverjum mánuði sér hann um að skila umsaminni upphæð til Sparisjóðsins.Útborgun getur hafist við 60 ára aldurinn en verður ekki lokið fyrr en 67 ára aldri er náð. Þó aldursmörkum sé náð þá er engin þörf á að leggja niður sparnaðinn. Það er hægt að leggja fyrir þessi 2% af launum á meðan viðkomandi þiggur launatekjur frá atvinnurekanda.Ekki er nauðsynlegt að vera búin að ákveða sig fyrir 15. janúar eins og margir hafa haldið fram. Launþegar geta hafið sparnaðinn hvenær sem þeim hentar.Þessi nýju sparnaðarform eru eingöngu til þess fallin að taka við ósköttuðum pening. Ef einhverjar hafa áhuga á sparnaði umfram þessi 2% þá bjóðast ýmsar aðrar sparnaðarleiðir. Umræða um sparnað hefur greinilega hreyft við fólki og nú þegar eru margir farnir að huga að heildarlausn í sparnaði.Baldur Guðmundsson