Lífræn framleiðsla skýtur rótum í Reykjanesbæ
Vottunarstofan Tún ehf hefur staðfest að fyrirtækið Alkemistinn uppfylli kröfur um lífrænar aðferðir við framleiðslu á snyrti- og heilsuvörum og á tejurtum. Vottorð þessa efnis var afhent á Gamlársdag 2009.
Alkemistinn er fyrsta fyrirtækið sem hlýtur vottun til lífrænnar framleiðslu í sveitarfélaginu Reykjanesbæ. Hefur slík starfsemi þar með skotið rótum í ríflega þriðja hverju sveitarfélagi landsins.
Með vottun Túns er staðfest að Alkemistinn noti einungis viðurkennd hráefni við framleiðslu á hinum vottuðu vörum, að aðferðir við úrvinnslu og blöndun samræmist reglum um lífræna framleiðslu, og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar uppfylli settar kröfur.
Alkemistinn er ungt sprotafyrirtæki sem eigandi þess og framkvæmdastjóri, Daniel Coaten, hefur komið haganlega fyrir í hluta byggingar sem áður hýsti vopnageymslu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið er því gott dæmi um þá endurmyndun og nýsköpun sem orðið hefur á gamla varnarsvæðinu á Suðurnesjum.
Alkemistinn hagnýtir vottuð lífræn hráefni til fjölbreyttrar framleiðslu á ýmsum snyrti- og heilsuvörum. Meðal þeirra má nefna jurtaþykkni og jurtaseyði byggð á útdrætti með olíum og vatni, varasalva, ilm- og húðvörur. Þá framleiðir Alkemistinn einnig lífrænar jurtablöndur til tegerðar.
Nú þegar framleiðir fyrirtækið 40 vottaðar lífrænar vörutegundir, segir í tilkynningu.
Mynd: Frá kynningu í framleiðslusal Alkemistans. Mynd úr einkasafni.