Leifsstöð: Tvöföld laun tveggja stjórnarmanna
Tveir stjórnarmenn í stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar fengu miljónagreiðslur gegnum fyrirtæki sín fyrir ráðgjöf til flugstöðvarinnar jafnhliða því sem þeir þáðu greiðslur fyrir stjórnarsetu í félaginu. Mennirnir eru báðir verkfræðingar og reka eigin ráðgjafafyrirtæki. Annar þeirra hefur haft umsjón með því að bjóða út aðstöðu í flugstöðinni en hinn hefur sinnt margvíslegum verkefnum. Höskuldur Ásgeirsson, forstjóri flugstöðvarinnar, segir ekkert óeðlilegt við þessa tilhögun þar sem hún hafi verið samþykkt í stjórninni. Fréttastofa Útvarps hefur heimildir fyrir því að greiðslur til þessara tveggja manna eða fyrirtækja þeirra hlaupi á einhverjum miljónum. Höskuldur Ásgeirsson segist ekki veita upplýsingar um upphæðir einstakra samninga til fjölmiðla. Höskuldur segist sjálfur hafa átt frumkvæði að því mennirnir hafi verið fengnir til að sinna þessum verkefnum fyrir flugstöðina. Hann hafi síðan samþykkt og greitt reikninga með hliðsjón af því sem stjórnin var búin að ákveða. Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.