Leggur skóna á hilluna
Eftir 52 ár í skóviðgerðum mun Jón Stefánsson loks láta af störfum í dag. Verkstæði hans á Skólavegi mun ekki þjóna Suðurnesjamönnum áfram en starfsemin mun færast yfir í Nettó-húsið þar sem lærlingur Jóns tekur við keflinu. Í gegnum árin hafa hillurnar á verkstæðinu fyllst af skóm sem fólk hefur gleymt að sækja. Einnig eru þar töskur og annað hafurtask sem Jón vill endilega losna við.
Jón Skó, eins og hann er jafnan kallaður hefur rekið skóverkstæðið í yfir 50 ár. Sigurbergur tengdafaðir hans hóf rekstur fyrirtækisins árið 1928 og því mætti segja að fyrirtækið sé eitt það elsta á Suðurnesjum sem hefur verið rekið samfleytt af sömu fjölskyldu. Nú er svo komið að Jón hyggst leggja skóna á hilluna eins og svo oft er haft á orði varðandi íþróttamenn. Það hefur sjálfsagt aldrei átt jafn vel við og núna. Í næsta blaði Víkurfrétta mun birtast ítarlegt viðtal við Jón og Guðrúnu konu hans.
Jón Skó og arftaki hans, Sigurður Ólafsson bregða á leik með skó í óskilum
VF-Mynd: Eyþór Sæmundsson