Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 5. apríl 2001 kl. 10:21

Láttu dekra við þig

Helga Ragnarsdóttir og María Rós Skúladóttir opnuðu snyrtistofu sl. laugardag, Fegurð Snyrtihús, við Hafnargötu 26 í Keflavík. Þær bjóða upp á alhliða snyrtingu og fótaaðgerðir og eru með gæðavörur frá Guinot og MD-Formulation sem eru sýrurvörur.
Helga er löggiltur fótaaðgerðafræðingur og meðhöndlar allar tegundir fótameina, s.s. sveppi, niðurgrónar táneglur, vörtur, harða húð, þykkar neglur og líkþorn. Þó að fólk hafi ekki eitthvað af ofangreindu, þá er líka voðalega gott að kíkja til Helgu og láta hana dekra við sig; fara í gott fótabað og láta snyrta fæturna.
María Rós er snyrtifræðingur en hún útskrifaðist fyrir nokkrum árum frá snyrtiskóla í London og hefur síðan unnið við sitt fag, m.a. á skemmtiferðaskipi, á Snyrtistofu Huldu og hjá Lindu. Hún býður upp margs konar andlitsböð, s.s. húðlyftimeðferð og ávaxtameðferð. „Það er voðalega gott að fara á 6 vikna fresti í andlitsbað og gefa húðinni góða næringu en andlitsböðin endurnæra húðina og gefa henni góðan raka. Við bjóðum líka upp á sýrumeðferð með MD-Formulation vörunum en hún er sérstaklega ætluð fólki sem eru með húðvandamál eins og bólur“, segir María.
Augun eru sögð vera spegill sálarinnar. Mörgum finnst því nauðsynlegt að snyrta augnumgjörðina reglulega, þ.e. láta plokka og lita augabrúnirnar, og undirstrika þannig fegurð augnanna. María tekur líka að sér að farða konur fyrir ýmis tækifæri og á snyrtistofunni eru til sölu ýmsar fegrunarvörur; varalitir, naglalökk og margar gerðir að kremum, t.d. slimming krem, krem fyrir appelsínuhúð, brjóstalyftikrem o.fl.
Blaðamanni VF var boðið að prófa heitan hand- og fótmaska hjá stelpunum á snyrtistofunni. Maskinn eru úr parafín-vaxi og mýkir húðina. Hendur og fætur urðu eins og silki eftir meðferðina. Helga og María segja maskana vera sérstaklega góða fyrir fólk með liðagigt og einnig fyrir sprungna og þurra húð.
Þeir sem vilja líta vel út í sumar, láta dekra aðeins við sig og láta sér líða vel, ættu að drífa sig og kíkja til Helgu og Maríu Rósar og fá meðferð við hæfi. Þær taka vel á móti þér. Síminn er 421-2600.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024