Viðskipti

Langbest vel tekið á Aðaltorgi
Helena Guðjónsdóttir og Ingólfur Karlsson inni á nýja veitingastaðnum á Aðaltorgi í Reykjanesbæ. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 24. mars 2023 kl. 06:19

Langbest vel tekið á Aðaltorgi

Einn elsti veitingastaðurinn á Suðurnesjum

„Það er eins og viðskiptavinir hafi verið að bíða eftir þessu miðað við traffíkina um síðustu helgi. Við ætluðum að vera með svona „mjúka“ opnun en það fór allt á annan veg því það varð mjög mikið að gera.Það er gaman að opna nýjan stað, með nýjum áherslum og svo er gott að vera kominn aftur niður „í bæ“ en við eigendur og starfsfólk erum pínulítið þreytt eftir átök síðustu vikuna við að flytja og opna nýjan veitingastað. Við hjónin viljum nýta tækifærið og þakka öllu starfsfólki okkar, vinum og vandamönnum sem unnu þrekvirki við opnun á þessum nýja og glæsilega veitingstað“, segir Ingólfur Karlsson, einn eigenda veitingastaðarins Langbest en hann opnaði í nýjum húsakynnum á Aðaltorgi í Keflavík síðasta föstudag. Langbest var síðustu ár á Ásbrú, í húsnæði sem áður hýsti þekkta veitingastaði Varnarliðsins.

Ingólfur og Helena kona hans hafa verið í veitingabransanum í 26 ár á Langbest og öðlast mikla reynslu á þeim tíma. Staðurinn er elsti veitingastaðurinn á Suðurnesjum og var upphaflega opnaður á Hafnargötu 62 af Axel Jónssyni fyrir tæplega 37 árum síðan.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það er sorgleg niðurstaða að við séum að yfirgefa Ásbrú en sannleikurinn er bara sá að ástand leiguhúsnæðis Langbest við Keilsbraut 771 var orðið ábótavant með meiru og stóðst ekki nútímakröfur og því fékk veitingastaðurinn aldrei tækifærið til að blómstra.

Í miðju Covid hittumst við Ingvar Eyfjörð framkvæmdastjóra Aðaltorgs í röðinni í Byko og ræddum stuttlega saman. Þá kom strax í ljós að við vorum að hugsa um sama hlutinn, þ.e. að Langbest flyttist á Aðaltorg. Því var reyndar slegið á frest um tíma, en það hefur nú loksins orðið að veruleika. Það er búið að vera heiður að vinna með hans góða fólki sem er með algjörlega frábæra framtíðarsýn fyrir svæðið í kringum Aðaltorg. Hönnunarferlið hófst í september á síðasta ári og við hjónin unnum náið saman með Hans Unnþóri Ólafssyni hjá TUL við útlit og hönnun veitingastaðarins. Verkís sá um allar lagnateikningar og framkvæmdir fóru á fullt í desember sama ár. Verktakar voru allir frá Suðurnesjum en þeir helstu voru: Hug verktakar, BFJ Málarar, Nesraf, Lagnaþjónusta Suðurnesja, Epoxy gólf, Suðupunktur og ÁG Blikk. Við hjónin viljum þakka þeim öllum fyrir vel unnin störf. Á nýja staðnum verða nokkrar breytingar frá því sem við höfum verið að gera áður, aðallega í þjónustu. Undanfarin ár hefur orðið mikil krafa frá viðskiptavinum okkar um að við bjóðum upp á borðapantanir og borðaþjónustu og nú höfum við mætt þeirri kröfu sem við gátum ekki framkvæmt á Ásbrú. Nú er hægt að panta borð á langbest.is og framundan eru tækifæri á því að bjóða upp á aðrar stafrænar lausnir eins og að panta mat beint frá borði með QR kóða og netpantanir.“

Ingólfur sagði að meðal nýjunga sé að bjóða upp á barþjónustu og stóraukið úrval af kranabjór, léttvíni og kokteilum. „Langbest hefur aukið sætafjölda og tekur nú um 130 manns í sæti. Þá er öll aðstaða til fyrirmyndar í nýju húsnæði og auk þess að færa þjónustustigið upp erum við einnig með sérstakan biðsal þar sem fólk getur beðið eftir borði eða sóttum pöntunum. Það tekur smá tíma að læra á nýja staðinn og aðlagast honum,“ sagði Ingólfur og bætti því við að til að byrja með verði ekki breytingar á matseðli en þær muni koma smám saman á næstu vikum og mánuðum. Margt nýtt verði í boði sem muni kitla bragðlaukana.

„Að lokum viljum við nota tækifærið og þakka öllum viðskiptavinum okkar fyrir stórkostlegar móttökur á Aðaltorgi og þolinmæðina á afstaðinni opnunarhelgi á nýja staðnum Það eru spennandi tímar framundan og við trúum því staðfastlega að framtíð Langbest verði björt á Aðaltorgi þar sem hlutirnir eru sannarlega að gerast, segir Ingólfur.