Landsvirkjun sér gagnaveri Advania á Fitjum fyrir rafmagni
Fulltrúar Landsvirkjunar og Advania hafa undirritað samning um afhendingu á rafmagni til gagnavers Advania á Fitjum. Samningurinn gerir Advania kleift að halda áfram að tryggja vöxt gagnaversreksturs fyrirtækisins og hefst afhending samkvæmt samningi fyrir árslok 2016.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir ánægjulegt að fá Advania í viðskiptavinahóp Landsvirkjunar. „Á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir rekstur gagnavera og undanfarin ár hefur Landsvirkjun unnið að því að kynna Ísland sem ákjósanlegan stað fyrir gagnaver. Góður vöxtur Advania og annarra gagnaversfyrirtækja á Íslandi byggist á hagstæðum og öruggum orkusamningum til langs tíma, samkeppnishæfu umhverfi og samvinnu hagsmunaaðila í greininni hér á landi.“
Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, segir umfang Advania á gagnaversmarkaði hafa vaxið mjög á undanförnum árum og stór verkefni í farvatninu á næstu misserum. „Aðgengi að orku er einn mikilvægasti þátturinn í rekstri gagnavera og því er það okkur mikil ánægja að gera þennan samning við Landsvirkjun sem við teljum að styrki getu okkar til að þjónusta fleiri alþjóðlega viðskiptavini í framtíðinni.“
Advania rekur gagnaver á Steinhellu í Hafnarfirði og á Fitjum í Reykjanesbæ. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að samningurinn gerir því kleift að halda áfram að vaxa og bæta við viðskiptavinum sem hýsa tölvukerfi í gagnaverum þess.
Orkan verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar. Landsvirkjun á og rekur 16 aflstöðvar, þar af 14 vatnsaflsstöðvar, tvær jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur. Sem stendur er Landsvirkjun að reisa nýja jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum á Norðausturlandi og einnig standa yfir framkvæmdir við stækkun vatnsaflsvirkjunar við Búrfell á Suðurlandi.