Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Kynnisferðir eignast allt hlutafé í SBK
Miðvikudagur 18. janúar 2006 kl. 15:58

Kynnisferðir eignast allt hlutafé í SBK

Kynnisferðir ehf. hafa keypt 60% hlutafjár í SBK hf. í Keflavík, en fyrir áttu Kynnisferðir 40% hlutafjár.

SBK hf. byggir á gömlum grunni, en það var stofnað árið 1930, þegar áætlunarferðir hófust milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Félagið annast rekstur strætisvagna á Reykjanesi, sérleyfisferða milli Reykjavíkur og Keflavíkur, leigu á rútum fyrir hverskonar hópferðir og skólaakstur fyrir Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Kynnisferðir ehf. voru stofnaðar árið 1968 og hafa sérhæft sig í rekstri dagsferða fyrir erlenda ferðamenn, sérleyfisakstri um Suðurland allt til Hafnar í Hornafirði og í rekstri Flugrútunnar til Keflavíkurflugvallar. Auk þess reka Kynnisferða ýmiskonar sérferðir og leigja út rútur fyrir stóra og smáa hópa.

Með sameiningu þessara tveggja félaga er þess vænst að sú góða þjónusta sem SBK hf. hefur veitt Suðurnesjabúum hingað til verði síst minni en hún hefur verið og verður leitað leiða til að auka þjónustu á svæðinu. SBK hf. mun áfram annast akstur strætisvagna, skólabíla og sérleyfisbifreiða milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Við sameininguna verða allar almenningssamgöngur á Suðurnesjum á einni hendi, en auk Flugrútunnar og sérleyfisins til Keflavíkur, þá tóku Kynnisferðir við sérleyfinu í Bláa lónið og Grindavík þann 1. janúar sl.

Brottfararstaður áætlunarbíla SBK og Kynnisferða er frá Umferðarmiðstöðinni, Vatnsmýrarvegi 10, Reykjavík og frá Grófinni 2-4 í Keflavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024