Kristinn tekur við Securitas á Reykjanesi
– „Hlakka til að fá að vera virkur þátttakandi í atvinnulífinu hér á nýjan leik“
Securitas er 400 manna fyrirtæki á öryggismarkaði og rekur öflugt tæplega fjörtíu manna útibú á Hafnargötunni í Reykjanesbæ. Kjartan Már Kjartansson hefur stýrt uppbyggingu útibúsins frá upphafi, en hann var nýlega ráðinn bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Við starfi hans tekur Kristinn Óskarsson en hann hefur átt sæti í framkvæmdastjórn Securitas í Reykjavík undanfarin ár og stýrt bæði gæslu- og starfsmannasviði félagsins með miklum myndarbrag.
Kristinn er viðskiptafræðingur MBA og með gráðu í mannauðsstjórnun. Kristinn er Suðurnesjamönnum að góðu kunnur enda er hann úr Reykjanesbæ og kenndi m.a. í Heiðarskóla í mörg ár áður en hann flutti sig um set til Securitas fyrir 6 árum.
„Ég tel að hér á svæðinu séu gríðarleg tækifæri, m.a. í uppbyggingu í Helguvík, í vaxandi ferðamannaiðnaði einkum í flugstöðinni, í útgerð og gagnaverum svo eitthvað sé nefnt. Ég er þess fullviss að við munum halda áfram þróun útibús okkar á Reykjanesi og vera á pari við þjónustu og frábæran starfsanda sem ég þekki svo vel úr höfuðstöðvum okkar í Reykjavík,“ segir Kristinn og bætir því við að tilhlökkun fylgja því að koma til starfa á heimaslóðum:
„Hér er frábært fólk og ég hlakka til að fá að vera virkur þátttakandi í atvinnulífinu hér á nýjan leik.“ Kristinn mun áfram eiga sæti í framkvæmdastjórn Securitas.