Viðskipti

Kraftmiklar konur funduðu í Hljómahöll
Fida Abu Libdeh, formaður FKA Suðurnes. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 13. október 2023 kl. 06:02

Kraftmiklar konur funduðu í Hljómahöll

„Í krafti kvenna“ var yfirskrift sérstakrar landsbyggðarráðstefnu Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA sem haldin í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ síðasta föstudag og laugardag. Um sjötíu konur víðsvegar að af landinu tóku þátt í ráðstefnunni sem þótti takast vel en öflugar konur í FKA Suðurnes sáu um alla skipulagningu og utanumhald.

Á ráðstefnunni var opnunarinnlegg frá FKA Suðurnes undir yfirskriftinni „Kraftur Kvenna“. Það flutti Fida Abu Libdeh, formaður FKA Suðurnes og stofnandi og framkvæmdastýra GeoSilica.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hanna Lilja Oddgeirsdóttir, læknir, framkvæmdastjóri lækninga og stofnandi Gynamedica, flutti erindið „Krafturinn innra með þér“.

„Samfélag í krafti fjölbreytileikans“ var erindi sem Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ, flutti.

„Kraftaverk á hverjum degi“ var yfirskrift erindis Guðfinnu Bjarnadóttur, framkvæmdastjóri LC ráðgjafar, fyrrverandi rektor Háskóla Reykjavíkur og fyrrverandi alþingiskona. Guðfinna fékk við sama tækifæri þakkarviðurkenningu FKA 2023.

Lokaerindi ráðstefnunnar var svo „Aðeins færri fávitar“ sem Sólborg Guðbrandsdóttir, rithöfundur, tónlistarkona og brautryðjandi í baráttu mannréttinda og réttinda kvenna, flutti.

Guðný Birna Guðmundsdóttir stýrði ráðstefnunni.

Í Hljómahöll voru svo kynningarbásar og tengslatímar, auk léttra veitinga og gæðastunda.

Eftir ráðstefnuna í Hljómahöll héldu konurnar á Brons í Keflavík og eftir það fjölmenntu þær í kvöldverð á KEF Restaurant.

Á laugardeginum var hópnum öllum stefnt í Bláa lónið í dekur og svo hádegisverð á Lava.