Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

KPMG á Suðurnesjum: „Við höfum trú á fyrirtækjum á svæðinu“
Þriðjudagur 18. október 2011 kl. 10:45

KPMG á Suðurnesjum: „Við höfum trú á fyrirtækjum á svæðinu“


Nú í sumar flutti KPMG starfsemi sína á Suðurnesjum í nýtt og glæsilegt húsnæði að Krossmóum 4 í Reykjanesbæ. Þar hefur félagið yfir að ráða rúmgóðu húsnæði á þriðju hæð auk aðgengis að glæsilegum fundar- og ráðstefnusal á 4. hæð. KPMG hefur undanfarin ár verið í samstarfi við Skrifstofuþjónustu Suðurnesja sem Karl Antonsson hefur rekið, en með opnun skrifstofunnar er sú starfsemi sameinuð KPMG og þeir starfsmenn sem þar voru verða nú allir starfsmenn þess félags. Á fimmtudag býður KPMG til morgunverðarfundarfundar á 5. hæð í Krossmóa byggingunni en þema fundarins er „Hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Á skrifstofunni í Reykjanesbæ starfa nú fjórir til fimm starfsmenn en einnig er unnið náið með skrifstofum KPMG um land allt, en félagið rekur nú 11 skrifstofur vítt og breitt um landið. Það er metnaðarmál hjá KPMG að byggja upp þjónustu sem næst sínum viðskiptavinum. Jafnframt er lögð áhersla á náið samstarf milli skrifstofa félagsins þannig að sérþekking og sérhæfing nýtist viðskiptavinum sem best til að veita faglega og hagkvæma þjónustu.

„Við höfum trú á fyrirtækjum á svæðinu“ segir Oddur G. Jónsson, verkefnastjóri, þegar hann var spurður að því hvers vegna KPMG væri að efla þjónustu sína á svæðinu. „Hér er heilmikill kraftur á mörgum sviðum og alveg ljóst að menn eru ekki búnir að missa móðinn þó ekki hafi allt gengið eins og skyldi.“

Oddur veitir skrifstofunni forstöðu ásamt Karli Antonssyni, og sjá þeir saman um daglegan rekstur og bera ábyrgð á verkefnum skrifstofunnar. „Mér finnst gott að vera kominn með öfluga starfsstöð hér á Suðurnesjum“ sagði Oddur í samtali við blaðamann, en Oddur vinnur mikið fyrir sveitarfélög á svæðinu, meðal annars við áætlanagerð. ,,Með því að vera með öfluga skrifstofu á svæðinu fylgjumst við enn betur með því sem er að gerast í samfélaginu og getum brugðist fljótt og vel við eftir því sem við á.“ Sigurþór C. Guðmundsson, partner, sem starfað hefur hjá KPMG í 25 ár sem endurskoðandi fjölmargra fyrirtækja af ýmsum stærðum, kemur svo að þeim verkefnum sem þörf er á.
Á skrifstofunni starfar hópur með mikla reynslu af reikningsskilum og endurskoðun, fyrir lítil og stór fyrirtæki. Starfsmenn félagsins hafa mikla reynslu af margs konar þjónustu, svo sem gerð viðskiptaáætlana, verðmati á félögum og eignarhlutum, endurskipulagningu og samningum við lánadrottna, svo nokkuð sé nefnt. „Við leggjum okkur fram um að uppfylla óskir og þarfir okkar viðskiptavina í samræmi við þeirra væntingar“ segir Karl, „og það er styrkur að hafa aðgang að öllum sérfræðingum félagsins.“ bætir hann við.

Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um þjónustuna eða ræða einstök verkefni geta haft samband við þá Karl og Odd. „Við tökum vel á móti öllum, það er alltaf gaman að setjast niður og ræða við kraftmikið fólk með spennandi hugmyndir“ sögðu þeir félagar að lokum.

Starfsfólk KPMG á efstu mynd f.v.: Guðmundur Axelsson, Ólafur Björnsson, Oddur G. Jónsson, Sigurþór Ch. Guðmundsson, Hrafnhildur Jónsdóttir, Karl Antonsson og Lilja Dögg Karlsdóttir.