Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Kóda fagnar fjörutíu ára afmæli
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 3. nóvember 2023 kl. 10:27

Kóda fagnar fjörutíu ára afmæli

Ein elsta verslun á Suðurnesjum, Kóda, fagnar fjörutíu ára afmæli í dag föstudaginn 3. nóvember. „Þetta er orðið langur tími og margt breyst. Þó vaktin sé orðin löng þá erum við erum við enn að og höfum gaman af,“ segja þær systur Kristín og Hildur Kristjánsdætur, eigendur verslunarinnar sem er við Hafnargötu 15 í Keflavík.

Þær systur hafa staðið vaktina í búðinni frá opnun, Kristín sem eigandi en Hildur var starfsmaður strax í upphafi. Þær segja að þjónusta sé stærsta atriðið í svona verslunarrekstri en fyrstu árin var fatnaður á konur og karla í boði en síðar var ákveðið að einbeita sér að kvenfatnaði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Tískan fer í hringi en við höfum alltaf reynt að bjóða upp á gott úrval. Við förum árlega á stóra sýningu í Danmörku þar sem við pöntum okkar helstu merki. Svo förum við á sýningar í París þar sem við göngum á milli birgja og pöntum frá þeim,“ segja þær systur en þær voru einmitt í París í upphafi vikunnar að panta nýjar vörur.

Konur af höfuðborgarsvæðisins hafa í auknum mæli sótt til þeirra en annars eru konur á Suðurnesjum þeirra viðskiptavinir. „Við vorum þrítugar pæjur þegar við byrjuðum. Nú erum við aðeins eldri pæjur,“ segja þær og hlæja en Kristín verður sjötug á næsta ári og Hildur er þremur árum yngri. Þær eru líklega fáar konurnar sem hafa ekki komið í Kóda og margar hafa verið reglulegir viðskiptavinir þeirra systra í áratugi. „Jú, þær eru margar sem hafa komið til okkar í áratugi. Þó svo netið hafi komið til sögunnar eru flestar fyrir utan kannski þær yngri, sem vilja koma og þreifa á fötunum og máta. Margar fara með poka af fötum heim og skoða aðeins betur það sem þær hafa áhuga á og velja á milli. Það hefur alla tíð verið þannig og gengið vel,“ sögðu þær systur sem bjóða 30% afmælisafslátt í tilefni tímamótanna 2.-4. nóvember.

Fjöldi fólks mætti í gær og samfagnaði með systrunum sem bjóða upp á kaffi og afmælisköku.

Valgerður Guðmundsdóttir var ein margra sem heilsaði upp á afmælispæjurnar í Kóda.