Klasafundur Sjávarklasans á Suðurnesjum
Íslenski sjávarklasinn býður fyrirtækjum í haftengdri starfsemi á Suðurnesjum til fundar í Keili miðvikudaginn 11. júní kl. 16 - 18. Um er að ræða annan Klasafund Sjávarklasans á Suðurnesjum, en markmiðið er að tengja betur saman fólk innan geirans, ýta undir samstarf og efla nýsköpun.
Á fyrsta fundinum sem var haldinn í lok síðasta árs var m.a. komið á árangursríku samstarfi á milli allra mennta- og rannsóknarstofnanna á svæðinu sem ber heitið Menntateymi Sjávarklasans á Suðurnesjum. Menntateymið hefur haldið þrjá fundi í sveitarfélögum á svæðinu á undanförnum mánuðum þar sem fulltrúar frá Keili, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum, Fisktækniskóla Íslands og Þekkingarsetrinu í Sandgerði hafa kynnt fyrir fyrirtækjum í haftengdri starfsemi þá aðstöðu og þekkingu sem þau hafa upp á að bjóða. Í kjölfarið voru fjöldi fyrirtækja heimsótt af Menntateyminu sem hefur skilað sér í rúmum tug nýrra samstarfsverkefna á milli fyrirtækja og nemenda. Sum þessara verkefna munu verða kynnt lauslega á Klasafundinum.
Aðaláhersla Klasafundarins næstkomandi miðvikudag verður á markaðssetningu íslenskra sjávarafurða. Friðrik Eysteinsson og Viðar Garðarsson, sérfræðingar í markaðsmálum (www.markadsmenn.is), munu halda erindi og skapa umræður um samstarf í markaðsmálum og sölu. Í lok fundar verður boðið upp á vettvangsferð um Keili þar sem aðstaðan og þekkingin þar innanhúss verður kynnt, sem að fyrirtæki í haftengdri starfsemi geta nýtt sér og hafa nú þegar gert með góðum árangri.
Þá verður einnig boðið upp á léttar veitingar. Vinsamlegast tilkynnið komu ykkar eða afþakkið boðið með netpósti á [email protected] sem fyrst, í síðasta lagi fyrir hádegi þann 10. júní.
Klasafundur Sjávarklasans á Suðurnesjum fer fram miðvikudagurinn 11. júní 2014 kl. 16 - 18 í aðalbyggingu Keilis að Ásbrú í Reykjanesbæ. Allir velkomnir.