Kjarnakonur fara fyrir KB-banka
Fyrsta útibú KB-banka opnar á Suðurnesjum í septembermánuði þegar endurbótum á húsnæði bankans við Flugvallarveg er lokið. Þegar hefur verið gengið frá skipun yfirmanna útibúsins, en það eru kjarnakonurnar, Jóhanna Reynisdóttir, fyrrum bæjarstjóri í Vogum, og nafna hennar Jóhanna Elín Óskarsdóttir en þær eru báðar rótgrónir Keflvíkingar. Jóhanna Reynisdóttir verður útibússtjóri, en Jóhanna Elín verður hennar hægri hönd.
Báðar hafa þær reynslu af bankamálum, en Jóhanna Reynisdóttir var útibússtjóri í Verslunarbankanum, forvera Glitnis, áður en hún tók við stjórn sveitarfélagsins í Vogum. Jóhanna Elín var svo útibússtjóri Landsbankans í Keflavík um árabil áður en hún lét þar af störfum og sneri sér að námi í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík. Því námi lauk hún um áramót. Athygli vekur að tvær konur séu ráðnar til að fara fyrir bankanum en nöfnurnar sögðu í samtali við Víkurfréttir að KB-banki vinni samkvæmt jafnréttisstefnu sem feli það í sér að jafnt kynjahlutfall sé í stjórnunarstöðum.
Þær eru eins og gefur að skilja afar spenntar fyrir þessu nýja verkefni. „Það er mikil áskorun að fá að koma að því að byggja útibúið upp frá grunni, en KB-banki og forveri hans hafa aldrei áður verið með starfsemi hér á Suðurnesjum. Það var í raun bara tímaspursmál hvenær KB kæmi hingað á svæðið því það er nægilega stórt til að grundvöllur sé fyrir öðrum banka og ekki má gleyma því að svæðið er í stöðugum vexti.“ Þessa dagana vinna þær að stefnumótun ásamt fyrirtækja- og markaðssviði bankans „Við erum að koma inn á svæðið með nýja og ferska vinda, sem við hyggjumst nýta til að koma traustum fótum undir rekstur útibúsins, svo það geti vaxið og dafnað“ segja stöllurnar sem sjá mikil tækifæri og finna fyrir miklum meðbyr við komu KB-banka á svæðið.“