Viðskipti

K&G fiskverkun í Sandgerði: Vilja ekki verða of stórir
Kjartan og Garðar í vinnslusal K&G í Sandgerði. Allt á fullu á bakvið. VF-myndir/pket.
Laugardagur 7. febrúar 2015 kl. 08:00

K&G fiskverkun í Sandgerði: Vilja ekki verða of stórir

Frábært að reka sjávarútvegsfyrirtæki í Sandgerði segja bræðurnir Kjartan og Garðar Guðmundssynir.

„Það er gaman að vera í þessari grein, ekki síst þegar vel gengur og við erum stoltir þáttttakendur. Umræðan um sjávarútveg mætti þó á stundum vera jákvæðari,“ segja bræðurnir Kjartan Páll og Garðar Snorri Guðmundssynir í K&G fiskverkun í Sandgerði, sem þeir hafa rekið í sautján ár.

Þeir bræður eru skemmtilegt dæmi um unga menn sem byrja rekstur með tvær hendur tómar. Saman unnu þeir í fiski í Garðinum á unglingsárum og kannski hafa þeir fengið bakteríuna þar. Árið 1998 stofnuðu þeir fyrirtækið K&G fiskverkun og byrjuðu smátt í leiguhúsnæði í Keflavík. Á sautján árum hafa þeir byggt það upp hægt og bítandi. Þeir vilja ekki verða „of stórir“ heldur vanda sig meira og það virðist hafa gefið sig vel hjá þeim. Það er þó ekki þar með sagt að þeir séu ekki stórtækir því í fyrra keyptu þeir öll hlutabréf í útgerðarfélaginu Hvammi í Hrísey. Í þeim kaupum voru línubáturinn Darri EA 75 og kvóti og þar starfa 13-15 manns í vinnslu.

Góð blanda í bátum og fiskmarkaði

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fyrirtækið á einnig línubátinn Pálínu Ágústsdóttur GK 1 en það er alnafna móður þeirra bræðra. Það voru líka tímamót í fyrirtækinu á góðærisárinu 2007 en þá keyptu þeir Kjartan og Garðar fiskvinnsluna Tros í Sandgerði. Þeir keyptu einnig húsnæði vinnslunnar sem var í eigu Nesfisks. Tros var mjög þekkt vinnsla, lengst af í eigu Loga Þormóðssonar, einum af frumkvöðlum „flugfisksins“. Þáverandi framkvæmdastjóri Tros sagði í viðtali við VF á þeim tíma: „Við munum vinna áfram í því öfluga starfi sem Tros hefur verið með í útflutningi og sölu og láta þá strákana, sem eru sérfræðingar í framleiðslunni, einbeita sér að því sem þeir gera best.“

Það voru orð að sönnu og þeir bræður kunna sitt fag og eru með um 25 starfsmenn í vinnslunni í Sandgerði. En hvernig er staðan hjá þeim í dag?

„Við framleiðum afurðir úr tvö þúsund tonnum af fiski á ári. Um helmingurinn kemur frá okkar bátum og hinn helmingurinn er keyptur á fiskmarkaði. Þetta virkar ágætlega að blanda þessu svona saman. Það er nauðsynlegt að vera með tryggingu í eigin afla því fiskverð á markaði getur sveiflast mikið og orðið of hátt,“ segja þeir bræður og bæta því við að hluti af velgengni þeirra hafi verið mjög gott starfsfólk en flestir hafa verið lengi hjá þeim. Aðspurðir um hvort Íslendingar fáist í fiskvinnu segja þeir það misjafnt. „Þetta er ágæt alþjóðleg blanda. Hér eru flakarar sem handflaka stóra fiskinn en þeir koma frá Filippseyjum og Póllandi en svo erum við líka með Íslendinga í öllum störfum og þeir eru líka uppistaðan í áhöfnunum okkar á bátunum. Þetta er lykilatriði að vera með gott fólk. Það skiptir ekki máli hvaðan það kemur.“

Spriklandi fiskur í flugið

Megnið af vinnslu K&G eru þorskflök sem fara til kaupenda í Evrópu og einnig vestur um haf. Línubátarnir þeirra koma með ferskan fisk til vinnslunnar og þegar Víkurfréttir heimsóttu þá var Pálína Ágústsdóttir GK 1 nýkomin úr róðri sem tók stuttan tíma. Sex tonn af fallegum þorski og eitthvað af ufsa voru veidd rétt fyrir utan Sandgerði og landað rétt fyrir kvöldmat. Þeir lögðu línuna, 15 þúsund króka, og þurftu varla að bíða eftir þeim gula sem kom í löngum bunum á krókana. Morguninn eftir var þessi fiskur flakaður og settur í kassa. Glæsileg þorskflök voru síðan komin í flugvél Icelandair um miðjan dag á leið til kaupenda í útlöndum. Þeir eru m.a. á Írlandi, Frakklandi og í Kanada. Og við spyrjum hvort allir vilji flökin eins verkuð?

„Það er misjafnt. Írar vilja fiskinn með roði og beini, Frakkar vilja roðlausa hnakka og Kanadamenn eru í þriðju útgáfunni, vilja flökin roðlaus og beinlaus.“ Þegar búið er að vinna flökin er annað af fisknum einnig nýtt í öðrum vinnslum. Hrognin, lifrin og beinin fara til annarra aðila á Suðurnesjum sem þeir segja afar jákvætt. „Við eigum bara eftir að markaðssetja slorið.“

Í K&G eru stærri þorskflökin saltsprautuð í fullkominni vélasamstæðu en svo er í fiskhúsinu stór og mikill lausfrystir og einnig stór frystiklefi. Á sumrin hafa bátarnir veitt makríl og hann hefur aðallega verið sendur út lausfrystur, m.a. til Úkraínu. Þeir segja verðið hærra fyrir markrílinn þegar hann er veiddur á minni bátunum og kemur spriklandi í land. Markríllinn hefur reynst mikil búbót á sumrin.

Kvótaumræðan oft á villigötum

Við spyrjum þá að sjálfsögðu út í kvótamálin en þeir hafa bætt við kvóta sinn jafnt og þétt á síðustu árum. „Við höfum bætt við okkur kvóta fyrir á annan milljarð króna og höfum fjárfest í krókaaflamarkinu. Þetta höfum við gert til þess að tryggja stöðu okkar betur og minnka áhættuna í rekstrinum. Umræðan um kvótamálin er oft sérstök og á villigötum en kvóti er hluti af landslagi sjávarútvegs á Íslandi og við fetum okkar slóð eftir því. Öðruvísi er þetta ekki hægt. Við reynum að gera þetta skynsamlega.“

En hvernig er umhverfið í þessum rekstri fyrir nýja aðila sem vilja spreyta sig?

Þeir bræður segja að vissulega séu þröskuldar á ýmsum sviðum. „Það kostar sitt að komast inn í kvótakerfið. Það er samt hægt. Ef menn er duglegir og útsjónasamir er allt hægt.“ Þeir eru líka á einu máli um það að Sandgerði sé frábær staðsetning fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. „Hér er stutt í flugvöllinn, höfnina og fiskmarkaðinn og hér eru mörg fiskvinnslufyrirtæki. Þjónusta við þau er góð og flutningskerfið utan af landi er líka til fyrirmyndar. Það er varla hægt að hugsa sér betri staðsetningu fyrir fiskvinnslu,“ sögðu þeir að lokum.

Þeir bræður og þeirra fyrirtæki eru í sviðsljósinu í vikulegum þætti Sjónvarps Víkurfrétta sem fylgdist með löndun úr báti þeirra og vinnslu í húsi. Sjáið innslagið hér neðst.



Það þarf að handflaka stóra þorskinn.



Um 25 manns vinna í Sandgerði hjá fyrirtækinu.

Þetta var vænn þorskur sem var landað úr Pálínu Ágústsdóttur GK1. Fleiri myndir úr lönduninni í Sandgerði hér að neðan.