Keilir eignast Flugskóla Íslands
Flugakademía Keilis hefur fest kaup á Flugskóla Íslands, einum elsta starfandi flugskóla landsins. Samanlagður fjöldi nemenda í bóklegu og verklegu námi í flugskólunum er á fimmta hundrað.
„Við erum afskaplega ánægðir með kaupin og teljum þau styrkja mjög flugkennslu á landinu. Flugakademía Keilis er ung að árum en hefur vaxið hratt og mun sú mikla reynsla og þekking stjórnenda og kennara Flugskóla Íslands hafa jákvæð áhrif á það starf sem við höfum byggt upp undanfarin ár,“ segir Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis.
„Það er auðvitað ákveðin eftirsjá eftir að hafa rekið flugskóla í hartnær þrjátíu ár en við teljum þessi kaup afar jákvæð. Með öflugum og traustum skóla verður hægt að stuðla að áframhaldandi vexti og þróun flugnáms á Íslandi og auka samstarf við flugrekendur,“ segir Baldvin Birgisson, skólastjóri Flugskóla Íslands.
Fyrst um sinn verður ekki gert ráð fyrir miklum breytingum á starfsemi skólanna, en áfram mun verkleg flugkennsla fara fram á bæði alþjóðaflugvellinum í Keflavík og Reykjavíkurflugvelli, auk þess sem skólinn mun efla starfsstöðvum á landsbyggðinni líkt og unnið hefur verið að undanfarið, meðal annars á Selfossi og Sauðárkróki.
Flugakademía Keilis naut ráðgjafar KPMG vegna viðskiptanna.
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, Baldvin Birgisson og Guðlaugur Sigurðsson frá Flugskóla Íslands, og Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis.