Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Keflvíska hugbúnaðarfyrirtækið daCoda: ConMan 2.0 .NET tilbúið
Föstudagur 2. maí 2003 kl. 12:37

Keflvíska hugbúnaðarfyrirtækið daCoda: ConMan 2.0 .NET tilbúið

Keflvíska hugbúnaðarfyrirtækið daCoda kynnti fyrir helgi nýja útgáfu af ConMan viðhaldskerfinu frá daCoda. Nýja útgáfan, sem hefur fengið vörunúmerið 2.0, er öll hin glæsilegasta og hefur fengið frábæra dóma hvar sem hún hefur verið sýnd. Nýja útgáfan var algjörlega skrifuð frá grunni og má því segja að ekki sé hægt að líkja henni við fyrirrennara hennar, þ.e. útgáfu 1.2.Undirstaða ConMan 2.0 er hið nýja þróunarumhverfi frá Microsoft sem ber nafnið .NET. Þetta nýja þróunarumhverfi hefur hvarvetna verið lofað fyrir framúrskarandi tækni og mikla stækkunarmöguleika. .NET umhverfið er einnig mjög samheldið samansafn af tólum og því lítið mál að endurnýta þann kóða sem skrifaður hefur verið í fleiri gerðir hugbúnaðar, s.s. upplýsingaskjái og vefþjónustur sem nýtist einkar vel í farsímalausnum.

Viðmót ConMan 2.0 hefur einnig verið endurhannað frá grunni. Það svipar mjög til hinna sívinsælu stýrikerfa frá Microsoft, þ.e. Windows 2000 og Windows XP. Það er því leikur einn fyrir þá sem eru vanir að vinna í þeim umhverfum að tileinka sér fljót og örugg vinnubrögð í ConMan 2.0.

Allar viðbætur við kerfið sem voru til fyrir fyrri útgáfur hafa einnig verið endurskrifaðar. Viðbæturnar eru margar og er þar helst að nefna Dagatal, Skoðanakannanir, Póstlista, Póstkort, Gallerí og Starfsmannahald.

daCoda er hugbúnaðarfyrirtæki sem stofnað var í febrúar 2002. Þó fyrirtækið sé ungt þá byggir það á gömlum grunni því starfsfólk þess hefur verið viðloðandi hugbúnaðarheiminn allt frá 1996. Fyrirtækið byggir að mestu á umsjónarkerfinu ConMan sem er miðlægt umsjónarkerfi sem hentar einkar vel fyrir vefsíður og aðra rafræna miðla en einnig hefur fyrirtækið tekið að sér margmiðlunargerð fyrir skjástanda og geisladiska.


Myndin: Ástþór Ingi Pétursson forritari og kerfisstjóri, Júlíus Guðmundsson framkvæmdastjóri og forritari og Borgar Erlendsson kerfisstjóri og forritari í höfuðstöðvum daCoda að Túngötu 1 í Keflavík. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024