Keflavíkurflugvöllur: Tvær af þremur á vegum Icelandair
Farþegaþotur hófu sig á loft tæplega tólf hundruð sinnum frá Keflavíkurflugvelli í júní. Langflestar voru merktar Icelandair. Þetta kemur fram á vefnum Túristi.is
Þeim hefur fjölgað erlendu flugfélögunum sem sjá sér hag í að fljúga til Íslands. Vægi þessara félaga er hins vegar lítið þegar horft er til allra brottfara á Keflavíkurflugvelli í júnímánuði. Flest eru þau með í kringum eitt til tvö prósent af heildinni samkvæmt talningu Túrista. Icelandair ber höfuð og herðar yfir aðra því tæplega sjötíu prósent af ferðum frá landinu voru á vegum þess.
Iceland Express er annað umsvifamesta fyrirtækið í millilandaflugi með níu prósent hlutdeild og WOW air er í þriðja sæti. Airberlin og SAS eru stærstu erlendu félögin eins og sjá má á töflunni hér að neðan.
Vægi þeirra 5 stærstu á Keflavíkurflugvelli í júní
1. Icelandair - 68,5%
2. Iceland Express - 9%
3. WOW air - 6%
4. Airberlin - 3,5%
5. SAS - 3%