KB banki og Flugstöð Leifs Eiríkssonar undirrita lánssamning
Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og Kaupþing banki hf. hafa undirritað lánssamning vegna fjármögnunar á stækkun norðurbyggingar flugstöðvarinnar til suðurs og endurgerð 2. hæðar. Lánssamningurinn kveður á um 3,3 milljarða króna, framkvæmdalán sem breytist í langtímalán við lok framkvæmda. Áætlað er að framkvæmdir taki tvö ár og að heildarkostnaður við framkvæmdirnar nemi tæpum 5 milljörðum króna.
Samkvæmt nýrri spá um farþegafjölda er gert ráð fyrir að tvöfalt fleiri farþegar fari um Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2015 en 2004, að þeim fjölgi úr 1,6 milljónum í 3,2 milljónir. Því hefur verið ákveðið að stækka flugstöðvarbygginguna til suðurs um 14.000 fermetra að heildargrunnfleti, auk þess að breyta skipulagi á 1. og 2. hæð. Verkið hófst nú í október og áætlað er að því ljúki vorið 2007.
Umfang samningsins og lánsfjárhæð endurspeglar fjárhagslegan styrk KB banka við fjármögnun stærri verkefna og að mæta óskum viðskiptavina um heildarlausnir í fjármálaþjónustu.
Af airport.is