Kaupa 6% hlut í geoSilica fyrir 40 milljónir króna

Nýir hluthafar hafa bæst í eigendahóp geoSilica. Fyrirtækið hyggur á mikla landvinninga. Heildarverðmæti fyrirtækisins 700 milljónir króna.
 
Nýir hluthafar hafa lagt geoSilica til 40 milljónir króna fyrir um 6% hlut í sprotafyrirtækinu. Samkvæmt því er heildarverðmæti fyrirtækisins því um 700 milljónir króna. Miklir landvinningar eru fyrirhugaðir hjá fyrirtækinu.
 
„Nú höfum við öll þau tól sem við þurfum til að sækja á erlenda markaði - gott starfsfólk, fjármagn og reynslumikla hluthafa,“ segir Fida Abu Libdeh, annar stofnanda geoSilica, í tilkynningu til fjölmiðla.
 
Fida stofnaði geoSilica ásamt Burkna Pálssyni árið 2012 þegar þau voru í námi í orku- og umhverfistæknifræði hjá Keili og Háskóla Íslands. Þau fengu þá hugmynd að vinna kísilsteinefni úr affallsvatni frá Hellisheiðavirkjun. Þremur árum síðar kynntu þau fyrstu vörunar og eru vörurnar seldar í dag á Íslandi og í þýskumælandi löndum.
 
„Salan á erlendum mörkuðum hefur gengið framar vonum og mánaðarsalan í gegnum netverslun þar er nú orðin meiri en á Íslandi. Nú stefnum við einnig á að fara með vörurnar í verslanir í þýskumælandi löndum,“ segir Fida sem segir fyrirtækið hyggja á frekari landvinninga. „Einn af hluthöfunum mun aðstoða okkur við að komast á Skandinavíumarkað og svo eru samningaviðræður um Kínamarkað komnar mjög langt á veg.“
 
Kísilsteinefni geoSilica er hágæða 100% náttúrulegt steinefni, þróað og framleitt á Íslandi úr jarðhitavatni frá Hellisheiðarvirkjun. Kísilsteinefnið er í vökvaformi, ætlað til inntöku og inniheldur engin viðbætt efni.
 
Kísill er steinefni sem finnst í náttúrunni og ýmsum fæðutegundum. Kísill er nauðsynlegt næringarefni fyrir líkamann en hann gegnir lykilhlutverki í myndun og viðhaldi beina. Kísill getur einnig auðveldað líkamanum upptöku á öðrum steinefnum, eins og kalki og magnesíum sem dæmi. Mikill skortur er á kísli í fæðu Vesturlandabúa sem hefur þau áhrif að leita þarf annarra leiða til að fullnægja líkamanum um það magn af kísli sem hann þarfnast.
 
geoSilica framleiðir nú fjórar vörutegundir og er með starfsemi að Ásbrú í Reykjanesbæ og við Hellisheiðavirkjun. Hjá fyrirtækinu starfa fimm manns.