Kanna möguleika á stórhýsi í stað Festi í Grindavík
Samkomuhúsið Festi í Grindavík gæti gengið í endurnýjun lífdaga ef hugmyndir JB eignarhaldsfélgs um nýtt stórhýsi, þar sem Festi stendur núna, ná fram að ganga.
Á vefsíðu Grindavíkurbæjar má nú sjá tölvugert myndband sem sýnir stórhýsi upp á fjórar hæðir, klætt gleri á allar hliðar, ásamt því sem mikill garður er á þaki hússins. Húsinu hefur verið valinn staður þar sem samkomuhúsið Festi er núna, á lóð í hjarta Grindavíkurbæjar. Festi yrði því rifin og nýtt hús byggt á rústunum.
Hallgrímur Bogason, athafnamaður og bæjarfulltrúi í Grindavík, er einn af þeim sem standa á bakvið hugmyndina um nýja stórhýsið. Hann segir verkefnið enn vera á rannsóknarstigi en hugmyndin geri ráð fyrir að í húsinu verði áfram rekið samkomuhúsið Festi, auk þess sem verslanir og skrifstofur verði í húsinu. Þá er einnig gert ráð fyrir hóteli í byggingunni.
Hallgrímur vildi ekkert segja um það hvort hugmyndin verði að veruleika. Verið væri að hnýta ýmsa lausa enda en hins vegar væri búið að tryggja fjármögnun verkefnisins, ef af því yrði. Og verðmiðinn á húsinu er 1,5 til 2 milljarðar króna.
Myndir: Úr kynningarmyndbandi á vef Grindavíkurbæjar.