Kanna framleiðslu eldsneytis úr úrgangi höfuðborgarsvæðisins
SORPA og Carbon Recycling International ehf. (CRI) hafa gengið til samstarfs um að kanna kosti þess að reisa og reka verksmiðju sem framleiðir fljótandi ökutækjaeldsneyti úr úrgangi af höfuðborgarsvæðinu. Verksmiðjan yrði byggð á nýrri tækni sem þróuð hefur verið af CRI til framleiðslu á endurnýjanlegu metanóli úr útblæstri og úrgangi. Endurvinnsla á úrgangi gæti dregið úr innflutningi eldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem minni þörf yrði fyrir urðunarstað í núverandi mynd. Verksmiðjan gæti hafið framleiðslu árið 2015.
CRI starfrækir þegar eldsneytisverksmiðju til framleiðslu á endurnýjanlegu metanóli við hlið orkuversins í Svartsengi við Grindavík.
Myndin: Verksmiðja CRI við Svartsengi er hin fyrsta sinnar tegundar í heiminum sem framleiðir endurnýjanlegt fljótandi eldsneyti á bíla úr jarðvarma. SORPA og CRI áforma nú að framleiða fljótandi eldsneyti úr sorpi.