Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Kanadískt flugfélag hefur reglulegt flug 16. desember til Íslands
Þriðjudagur 10. desember 2002 kl. 11:51

Kanadískt flugfélag hefur reglulegt flug 16. desember til Íslands

- Langþráður draumur að rætast segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri og umboðsmaður félagsins í samtali við Víkurfréttir.

Flugfélagið HMY Airways mun frá og með 16. desember hefja vikulegt flug milli vesturstrandar Kanada og Evrópu með millilendingum á Keflavíkurflugvelli. Strax í lok apríl er gert ráð fyrir að fjölga áfangastöðum í Evrópu og er þá stefnt að daglegu flugi til og frá Íslandi. Fyrstu flugin verða frá Vancouver/Calgary í Kanada til Manchester á Englandi en nýjir áfangastaðir bætast við í Evrópu í vor. Þegar eru hafnar viðræður við íslensk stjórnvöld um að HMY fái leyfi til að flytja farþega milli Íslands og Kanada eins og gert var á árunum 1995-2001.Steinþór Jónsson hótelstjóri Hótels Keflavíkur er umboðsmaður félagsins á Íslandi en árið 1995 kom hann á reglulegu flugi frá Kanada til Íslands: „Frá því að Canada 3000 hætti millilendingum árið 1999 hef ég leitað allra leiða til að finna nýja möguleika til að þessi mikilvæga samgönguæð opnaðist aftur. Hef ég m.a. ferðast til Kanada á hverju ári og verið í stöðugu sambandi við gamla félaga frá Canada 3000 og þannig lagt í verkefnið bæði mikinn tíma og fjármuni. Það er því ánægjulegt að sjá þetta nýja félag hefja flug milli þessara heimsálfa með reglulegri viðkomu á Íslandi.“ segir Steinþór Jónsson sem nú hefur milligöngu um komu flugfélags frá Kanada nú í annað sinn en árið 1995 tókst honum að ná samningi við Canada 3000 um daglegar millilendingar í Keflavík í fjögur sumur þar á eftir. “Auk HMY Airways á ég enn í viðræðum við forsvarsmenn Canada West flugfélagsins en þeir hafa enn áhuga á að koma líka á leið sinni frá Kanada til austur Evrópu. Ef fjármögnun þeirra gengur vel gætu þeir jafnvel komið í sumar.“

„Sem umboðsmaður Canada 3000 sótti ég um leyfi árið 1995 hjá samgönguyfirvöldum til að flytja farþega milli Keflavíkur og Kanada og þótti það mikið framfaraskref enda leyfi veitt fyrir daglegu flugi milli landanna. Þegar til átti að taka voru farþega- og flugafgreiðslugjöld það há að flugfélagið sá sér ekki fært að afgreiða farþega í vélarnar daglega og varð niðurstaðan því vikulegt flug þegar best lét,“ segir Steinþór í upprifjun sinni frá tímum Canada 3000: „Aftur á móti eru lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli mjög samkeppnishæf og þar eru mikil sóknartækifæri sem við verðum að nýta. Þó hafa reglulega komið upp hugmyndir um að lækka lendingargjöld frekar yfir vetrarmánuðina sem mér finnst góð hugmynd. Sem áhugamaður um flugmál mun ég beita mér áfram í þessum málum.“

„Á Keflavíkurflugvelli eru nú þrjú góð fyrirtæki sem bjóða í farþega- og flugafgreiðslu og fengum við tilboð frá þeim öllum, en þau eru I.G.S., Suðurflug og Vallarvinir. Tilboð voru mjög hagstæð en verð í dag eru ólíkt lægri en þegar Canada 3000 var hér í þjónustu fyrir nokkrum árum. Þessi hagstæðu gjöld fyrirtækjanna skipta öllu máli þegar boðið verður uppá innritun hér á Keflavíkurflugvelli en af þeim viðbrögðum sem HMY fékk má ætla að virk samkeppni ríki á flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli í dag. Samningur við Vallarvini hefur nú þegar verðið undirritaður.“ segir Steinþór.

Samkvæmt upplýsingum frá þjónustuaðilum á Keflavíkurflugvelli eru millilendingar af þessu tagi mjög atvinnuskapandi en þjónusta tengd eldneytistöku samkvæmt ferðaáætlun í sumar kallar á 10-12 starfsgildi en með farþegaafgreiðslu og matreiðslu flugmáltíðar á Keflavíkurflugvelli gæti talan auðveldlega hækkað í 30-40 manns.
„Hvert starfsgildi sem við getum búið til á svæðinu skiptir okkur miklu máli. Á síðust vikum hef ég verið í sambandi við samgönguyfirvöld til að tryggja formlegt leyfi til að afgreiða farþega til og frá Kanada og mun halda áfram þeirri vinnu. Þá mun ég leggja ríka áherslu við mína menn hjá HMY að flugmáltíðir séu keyptar hér á landi í framhaldi af mjög jákvæðum umsögnum frá Canada 3000 um matinn frá Flugeldhúsi Flugþjónustunar,“ segir Steinþór og bætir að allir farþegar HMY sem millilenda á Íslandi fá tækifæri til að koma inn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og versla þar.

Þann 16. desember nk. mun fyrsta flugvélin frá HMY koma til Íslands og í tilefni af því mun Jim Westmacott varaforstjóri flugfélagsins vera með í för og dvelja í tvo daga í Keflavík. Steinþór segir að forsvarsmenn flugfélagsins séu mjög bjartsýnir á samstarfið og hann segir að félagið sýni verkefninu mikinn áhuga: „Nú er unnið að því að fá leyfi frá íslenskum stjórnvöldum til að fljúga með íslenska farþega til Kanada og vonandi verður hægt að flytja fyrstu farþegana til og frá landinu á næstu vikum eða mánuðum. Sjálfur er ég mjög bjartsýnn á verkefnið og tel að með tilkomu þessa nýja flugfélags muni ferðamannafjöldi til Íslands aukast töluvert, sem er náttúrulega endanlegt markmið,“ segir Steinþór Jónsson að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024