Kaffitár: Mikilvægt að styðja innlenda framleiðslu
Kaffitár er eitt þeirra fyrirtækja sem finnur fyrir bankakreppunni sem nú ríkir. Þannig hefur fyrirtækið ekki fengið gjaldeyri sl. tvær vikur til að flytja inn hráefni fyrir framleiðslu sína, en Kaffitár rekur stærstu kaffibrennslu landsins í Reykjanesbæ. Á meðan bíða hráefnisgámar á hafnarbakkanum í Hamborg í Þýslalandi. Stella Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kaffitárs, segir þó engan kaffiskort yfirvofandi, þar sem fyrirtækið eigi nægar birgðir.
Stella segir stöðu Kaffitárs góða þó svo samdráttur í kaffihúsum fyrirtækisins sé augljós. Salan þar sé minni og kemur aðallega fram í minni sölu á meðlæti með kaffidrykkjum. Kaffitár bregst við ástandinu með því að bjóða upp á hagkvæma kosti fyrir viðskiptavini og fleiri tilboð í kaffihúsunum. Þá hvetur Stella fólk til að kaupa innlenda framleiðslu og bendir á að virðisaukinn sé mikill í innlendri framleiðslu. Kaffitár kaupir baunir beint frá kaffibændum en öll frekari úrvinnsla fari fram í kaffibrennslu Kaffitárs í Reykjanesbæ. Þar sé brennt, malað og pakkað. Um 40 manns vinna hjá Kaffitári í Njarðvík og segir Stella að allt sé gert til að halda í þau störf. Minnkandi sala á kaffihúsunum hafi einna helst komið niðri á eldhúsi Kaffitárs í Reykjanesbæ. Þar hafi engum verið sagt upp en starfsmenn hafi tekið á sig minna starfshlutfall.
Eins og fram hefur komið skiptir Íslendinga miklu máli í dag að styðja við innlenda framleiðslu og verðmætaaukningu í landinu. Kaffitár er að framleiða innlenda vöru, þó svo hráefnið komi frá fjarlægum löndum. Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, hefur einnig verið í góðu sambandi við kaffibóndann sem sér fyrirtækinu fyrir baunum milliliðalaust. Hann hefur fullan skilning á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi og það sé afar mikilvægt fyrir Kaffitár að vera í traustu sambandi við kaffibændur.
Stella leggur áherslu á að Kaffitár standi vel að vígi. Rekstrareiningin sé orðin stór eftir mikinn vöxt síðustu ára þar sem fyrirtækið hafi stækkað um 30% á ári. Stærra fyrirtæki þýðir að fleiri störf eru í húfi. Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi vaxið hratt, þá segir Stella að haldið hafi verið í hugunarhátt smáfyrirtækja. Þá sé hefð fyrir því hjá Kaffitári að starfsmenn geti gengið í mörg störf innan fyrirtækins, enda sé auður í fólki sem hafi víðtæka þekkingu.
Þó svo kreppi að um þessar mundir, þá opnast líka tækifæri í því ástandi sem nú er. Þannig hafi ný viðskipti orðið til þar sem heildsalar geti ekki boðið viðskiptavinum sínum upp á innflutt kaffi og því sé leitað til Kaffitárs.
Stella Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kaffitárs, sagði að stærsta verkefni Kaffitárs í dag væri að vinna vel úr þeim aðstæðum sem væru í landinu. Hvatning til fólks um að styðja við innlenda framleiðslu skiptir miklu við þær aðstæður sem nú ríkja.
Mynd: Stella Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kaffitárs, í framleiðslusal fyrirtækisins í Reykjanesbæ. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson