KAFFITÁR MEÐ KAFFIHJÁLP TIL NIKARAGVA OG HONDÚRAS
Kaffihjálp er nýtt kaffi frá Kaffitár en með hverju seldu kíló af því munu 200 kr. renna til uppbyggingarstarfs í Hondúras og Nikaragva. „Ég hef oft komið á þessi svæði og í nágrenni þeirra eins og Gvatimala, Kosta Ríka og víðar og þekki marga bændur þarna. Þess vegna langaði mig að hjálpa til með þessu framlagi“, sagði Aðalheiður Héðinsdóttir kaffikona Suðurnesjamanna í Kaffitár.„Um áramótin er tími kaffiuppskeru í Mið-Ameríku. Þá er sumar gengið í garð eftir margra mánuða rigningartíð; sól skín hátt á lofti, veðrið er fallegt og þurrt. Í ár má búast við því að sumarið verði lítil gleðitíð fyrir íbúa Hondúras og lok október, því skömmu áður en sumarið hélt innreið sína reið fellibylurinn Mitch yfir Mið-Ameríku með ólýsanlegum afleiðingum. Í fimm daga rigndi látlaust og var úrkoman svo mikil að hún mældist á einum degi nærri ársúrkomu í Reykjavík. Afleiðingarnar eru flestum kunnar. Íslendingar sem þekkja sjálfir hörmungar flóða finna til samkenndar með íbúum Hondúras og Nikaragva“, sagði Aðalheiður.Starfsfólk Kaffitárs ákvað að leggja þeim lið við uppbyggingastarfið og hóf því framleiðslu á nýju kaffi frá Nikaragva sem ber nafnið Kaffihjálp. Af hverju seldu kílói af Kaffihjálp mun Kaffitár leggja Hjálparstofnun kirkjunnar til 200 krónur til hjálparstarfs í MIð-Ameríku. „Við vonum að framlag Íslendinga megi verða sem mest og með því sýnum við íbúum Nikaragva og Hondúras samhug“, sagði Aðalheiður.