Kaffitár líklega ekki áfram í FLE
- Talið að Joe & The Juice komi inn
Kaffitár er ekki á meðal fyrstu kosta um veitingarekstur í brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, að mati valnefndar Isavia. Frá þessu er greint á vef Viðskiptablaðsins í dag. Þar er einnig greint frá því að danska fyrirtækið Joe & the Juice komi inn í stað Kaffitárs. Isavia efndi til útboðs um rekstur verslana og veitingahúsa í brottfararsalnum í vor og er nú svo komið í ferlinu að viðræður eru hafnar við þá sem komust áfram. Sömuleiðis hefur þeim verið tilkynnt um niðurstöðuna sem ekki komust áfram í valinu og ekki verður rætt við. Friðþór Eydal talsmaður Isavia sagði í samtali við VF á dögunum að Isavia myndi fara til viðræðna við fyrirtæki sem færu eftir sömu ákveðnu heildarhugmyndum og sýn sem Isavia hefur í huga. Viðskiptaætlun er svo skoðum eftir að heildarhugmynd hefur verið samþykkt af Isavia.
„Það er þegar búið að hafna ákveðnum fjölda rekstraraðila, viðræður eru svo hafnar við ákveðinn fjölda aðila, á meðan nokkrir eru á bið,“ sagði Friðþór í samtali við VF. Hann segir að viðræður við ýmsa aðila muni líklega standa fram í nóvember. Friðþór vildi ekki tjá sig um stöðu Kaffitár þegar eftir því var leitað. Isavia gætir trúnaðar um alla umsækjendur en að loknu samningaferlinu verða gefin upp nöfn þeirra aðila sem samið verður við.
Isavia kynnti forval vegna aðstöðu til verslunar- og veitingareksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 19. mars síðastliðinn sem vakti mikla athygli innanlands og erlendis. Samningstími núverandi rekstraraðila rennur út í árslok og gert er ráð fyrir að endurnýjað verslunarsvæði verði tekið í notkun vorið 2015. Samhliða vali á rekstraraðilum verður ráðist í breytingar á brottfararsal flugstöðvarinnar og endurskipulagningu þjónustunnar. Vegna breyttrar farþegaskiptingar og mikillar aukningar erlendra ferðamanna verður íslensk náttúra og menning höfð að leiðarljósi við endurskipulagningu og hönnun.
Val á rekstraraðilum fer fram í samvinnu við breska ráðgjafarfyrirtækið Concession Planning International ,sem er eitt virtasta fyrirtækið á sviði reksturs og skipulagningar smásölu á flugvöllum, og er unnið eftir alþjóðlegri fyrirmynd.