Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Fimmtudagur 28. september 2000 kl. 14:39

Kaffitár 10 ára og á stöðugri uppleið!

Í tilefni 10 ára afmælis Kaffitárs býður Aðalheiður Héðinsdóttir, viðskiptavinum sínum að koma í húsnæði fyrirtækisins við Holtsgötu í Njarðvík n.k. laugardag milli kl. 13-16. Klukkan 14 ætlar Sigríður Guðbergsdóttir að brenna kaffi og fólk getur þá komið og séð hvernig kaffibrennslan fer fram. Erla Kristinsdóttir, Íslandsmeistari kaffibarþjóna, verður einnig á staðnum og sýnir hvernig blanda á gómsæta kaffidrykki. Aðalheiður lætur gesti ekki fara heim með tóman maga og býður upp á kaffi og konfekt. Besta cappuccino norðan Alpafjalla „Erla er að fara til Monte Carlo að keppa í heimsmeistaramóti kaffibarþjóna eftir hálfan mánuð en hún vinnur á kaffihúsi okkar í Kringlunni“, segir Aðalheiður sem rekur einnig kaffihús og verslun í Bankastræti. „Erla gerir besta cappucino norðan Alpafjalla og Suðurnesjabúum gefst kostur á að bragða á þeim ljúffenga drykk nk. laugardag. Hún æfir sig nú á hverju kvöldi þessa dagana. Vinningsdrykkurinn hennar frá því í vor heitir Franskur Flamingó en hann hefur verið mjög vinsæll hjá okkur. Í honum er vanillu og amarettó síróp og rjómi. Jöklakaffið hefur einnig notið mikilla vinsælda en í því er tvöfaldur espressó á klaka, með rjóma og sírópi“, segir Aðalheiður en þess má geta að heimasíða fyrirtækisins www.kaffitar.is verður opnuð á næsta laugardag og þá geta áhugasamir skellt sér á netið og fundið margar góðar uppskriftir að kaffidrykkjum ásamt skemmtilegum fróðleik um kaffi og margt fleira. Flytur í nýtt húsnæði Kaffitár hefur vaxið og dafnað þau ár sem það hefur verið starfrækt, eða um 35 - 50% á milli ára og Aðalheiður segist stefna að sömu aukningu næstu árin. Markaðshlutdeild Kaffitárs á Íslandi er nú 5-7%, sem verður að teljast harla gott miðað við markaðshlutdeild sælkerakaffis annars staðar í heiminum. Húsnæði Kaffitárs er fyrir löngu sprungið en verið er að hanna og teikna 1000 fermetra húsnæði við Fitjar í Njarðvík sem hýsa á starfsemina. „Ég ætlaði ekki að vilja halda afmæli fyrirtækisins á Holtsgötunni því mér finnst allt vera svo þröngt og allt út um allt. En svo hugsaði ég með mér að það væri kannski gaman fyrir fólk að sjá hvar fyrirtækið er og koma svo aftur að ári og sjá breytinguna. Vinnuaðstaðan í nýja húsinu verður mun betri og við munum vélvæða meira hjá okkur framleiðsluna en nú pökkum við t.d. öllu í höndunum. Ég geri ráð fyrir að afkasta mun meira þegar við flytjum en fyrst og fremst verður aðstaða fyrir starfsfólkið mun betri en nú vinna um 30 manns hjá fyrirtækinu þar af 10 hér á Suðurnesjum“, segir Aðalheiður. Nýtt útlit kynnt Ný heimasíða verður opnuð á laugardaginn og þá verður einnig nýtt útlit fyrirtækisins kynnt. „Við höfum unnið með auglýsingastofunni Fíton að hönnun þessa nýja útlits. Öll umgjörð fyrirtækisins verður þá í sama stíl, þ.e. umbúðir, merkingar á bílnum okkar, heimasíðan og annað. Nýja útlitið er ekki hefðbundið, fremur en annað sem við gerum, segir Aðalheiður leyndardómsfull á svip. Nokkur bið verður þó á því að nýju umbúðirnar komi í verslanir, en Aðalheiður lofar því að þær fari ekki fram hjá neinum þegar að því kemur, enda ansi fjörugt útlit.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024