Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Miðvikudagur 17. nóvember 1999 kl. 23:05

KAFFI DUUS 2 ÁRA

Kaffihús með útsýni Kaffi-Duus hefur notið sívaxandi vinsælda frá því að það var opnað þann 28.nóvember 1997. Eigendur kaffihússins eru hjónin Sigrún Helgadóttir og Sigurbjörn Páll Sigurðsson, betur þekktur sem Bói. Matseðillinn á Kaffi-Duus er mjög fjölbreyttur. Á morgnana er boðið uppá morgunmat, ristað brauð, rúnstykki, egg og beikon, svo eitthvað sé nefnt. Grillið er alltaf opið frá morgni til kvölds, og þar verða hinar margrómuðu samlokur og hamborgarar til. Auk þess er boðið upp á sérstakan hádegisverðarmatseðil. „Við skjótum líka alltaf inn sérréttum og ekki má gleyma súpu í brauði sem við erum orðin þekkt fyrir”, segir Bói. „Á kvöldin erum við svo með sérstakan matseðil, en á honum eru bæði kjöt- og fiskréttir. Við erum ekki með neina sérstaka línu í matargerð, leggjum fyrst og fremst áherslu á vel útilátinn og almennilegan mat.” Kaffi og kökur Stendur til að koma með einhverjar nýjungar á næstunni? „Já, við verðum sennilega með fiskihlaðborð í desember. Við vorum með það á sama tíma í fyrra og það naut mikilla vinsælda.” Á Kaffi-Duus er einnig hægt að fá kaffidrykki, girnilegar tertur og smurbrauð. Bói segir oft sama fólkið koma á hverjum degi í mat og kaffi, auk þess sæki kaninn mikið í fiskinn og súpuna. „Ég gæti trúað að ameríkanar séu um 30% viðskiptavina okkar og á sumrin fáum við óhemju mikið af ferðamönnum til okkar. Viðskiptin hafa líka aukist töluvert eftir að hvalaskoðunarferðirnar byrjuðu. Vandamálið er að við getum ekki tekið við rútum því við erum bara með 45 manns í sæti”, segir Bói. Kaffi-Duus stækkar Útlit er fyrir að plássleysi verði lengur vandamál því nú stendur til að stækka staðinn. „Salurinn mun rúma um 50 gesti í viðbót, alls um 95-100 manns, þegar búið verður að byggja yfir veröndina og lengja húsið um nokkra metra í norðvestur”, segir Bói. „Við ætluðum reyndar ekki að stækka fyrr en eftir fimm ár en reksturinn hefur gengið svo vel að húsnæðið er löngu sprungið.” Bói gerir ráð fyrir að viðbyggingin verði vonandi að mestu tilbúin næsta sumar. „Þá skiptist staðurinn í tvo sali, veitingasal og kaffihús. Í framtíðinni langar mig líka til að byggja veröndina lengra út og útbúa afgirt leiksvæði fyrir börnin hér fyrir neðan”, segir Bói og upplýsir um leið að hann sé með fleiri hugmyndir í kollinum varðandi breytinga á staðnum, en ekki sé tímabært að segja frá þeim. Hnefaleikakvöld Í upphafi stóð til að hafa sérstök fótboltakvöld á kaffihúsinu en Bói segir það ekki hafa gengið því slíkt eigi illa við gesti sem komi til að kjafta saman og vera í rólegheitum. „Við sýnum hins vegar frá boxinu á laugardögum, þá er stundum fullt hjá okkur. Það er alltaf ákveðinn hópur sem kemur á hverjum laugardegi, svo týnist hingað fólk sem hefur frétt af þessu. Mönnum leiðist kannski að sitja einir heima og horfa á þetta. Við sitjum hér stundum og fylgjumst með til enda, þá myndast oft góð stemming”, segir Bói að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024