Viðskipti

K-sport í 25 ár við Hafnargötuna
Guðrún Eir Jónsdóttir, afgreiðslustúlka, ásamt Sigurði Björgvinssyni, verslunareiganda.
Laugardagur 24. nóvember 2018 kl. 14:26

K-sport í 25 ár við Hafnargötuna

-Siggi Björgvins hætti við að hætta. Býður upp á mikið úrval af sportvöru

Siggi Björgvins, fyrrum meistaraflokksmaður hjá Keflavík í fótbolta, hefur staðið sportvöru vaktina fyrir fólkið í bænum undanfarin 25 ár. Hann selur þar íþrótta- og útivistarfatnað á alla fjölskylduna. Það er gaman að segja frá því að Sigurður Björgvinsson lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 1975 þá aðeins sextán ára gamall. Hann var sæmdur silfurmerki knattspyrnudeildar Keflavíkur árið 2011 og var þá næst leikjahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi. Siggi er kraftmikill Keflvíkingur sem komið hefur þessari flottu sportvöruverslun á kortið hjá mörgum bæjarbúum. Sjálfur fær hann útrás daglega með því að hlaupa sex til sjö kílómetra ásamt því að spila með félögum sínum fótbolta í Old Boys í hverri viku. Líklega vilja langflestir sjá sportbúðina hans Sigga lifa áfram og geta ekki hugsað sér bæinn án K-sport. 
 

Vörn í sókn

 
Það er alltaf stutt í hláturinn hjá Sigga en í þessari heimsókn var oft hlegið inn á milli þess sem alvaran var einnig rædd en K-sport var næstum búið að loka í haust þegar eigandinn missti eldmóðinn og fannst bæjarbúar ekki kunna að meta lengur að versla í heimabyggð.
 
„Ég var á leiðinni að hætta og ætlaði að selja frá mér K-sport en svo fékk ég svo mikla hvatningu frá fólki um að halda áfram að ég er hættur við að hætta. Núna er ég aftur fullur af bjartsýni og ætla að halda áfram að létta fólki lífið með því að bjóða því upp á góða sportvöruverslun hér heima. Þú átt ekki að þurfa að fara til Reykjavíkur til að kaupa eitthvað í sportið. 
 
Hér er fullt af vörum og á sambærilegu verði og innfrá. Ég er með alls konar merkjavöru eins og Nike, Under Armour, Speedo, Zo-On svo eitthvað sé nefnt. Alls staðar á landinu er merkjavaran á sama verði. Svo er ég kominn í samstarf við ótrúlega flotta danska keðju sem býður gæði sem slá algjörlega í gegn.
 
Norðmenn sem eru mjög kröfuharðir á útivistarfatnað eru mjög hrifnir af þessari dönsku merkjavöru sem nefnist Zig-Zag fyrir börn, Whistler og Endurance fyrir fullorðna. Norsarar eru tortryggnir á allt annað en norskt þegar kemur að útivistarfatnaði sem er sérgrein þeirra en þeir eru mjög hrifnir af þessari sportvörulínu. Þessar vörur frá Danmörku eru á gríðarlega góðu verði hjá okkur.
 
Við erum einnig með mjög góðan sundfatnað frá Speedo og smart jógafatnað og fylgihluti eins og flottar jógadýnur og fleira. Strigaskór eru í miklu úrvali hjá okkur, glæsilegar kuldaúlpur á börn og fullorðna, regngalla, vindgalla á allan aldur, húfur, vettlingar, góðir sportsokkar svo eitthvað sé nefnt.
 
Svo er ég með ódýrustu skólatöskurnar í bænum en það eru stórar íþróttatöskur sem fólk hefur keypt í skólann handa krökkunum. Alls konar bakpokar eru einnig hérna í útivistina. Búðin er klár fyrir jólin, heilu veggirnir fullir af fallegri vöru. Því meira sem fólk verslar hér heima því meira úrval getum við boðið upp á. Það hangir saman.
 
Ég vil að fólk geti verslað hér heima og þess vegna er ég að þessu. Það vilja örugglega allir halda í búðirnar sem eru hérna því það skapar einnig lifandi bæjarfélag og góða stemmningu bæjarbúa. Við erum bærinn og við getum látið alla verslun lifa ef við hugsum okkur aðeins um og verslum heima frekar en að kaupa sömu vöru í bænum eða á netinu sem jafnvel passar svo ekki,“ segir Siggi í einlægni. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024