JURTAGULL Á EVRÓPUMARKAÐ
Í bílskúr við Skólaveg í Keflavík eru framleiddar sápur og olíur úr íslenskum jurtum. Hrafnhildur Njálsdóttir er starfsmaður og eigandi fyrirtækisins Jurtagulls, en það var stofnað árið 1994. Nýlega ákvað hollenskt heilsuvörukeðja, Natudis, að taka vörur hennar til dreifingar í Hollandi.„Ung kona hringdi í mig frá Hótel Loftleiðum því hún hafði keypt sér hárnæringu frá Jurtagulli og var ofsalega hrifinn af vörunni. Hún spurði mig hvort ég gæti selt sér einn kassa af hárnæringu. Það var auðsótt mál og ég mælti mér mót við hana. Eftir að hún kom aftur til Hollands byrjaði hún að hringja reglulega í mig. Ég skildi þetta ekki alveg og fannst þetta mjög sérstakt. Hún var mjög almennileg og sagðist ætla að gera allt sem hún gæti til að koma vörunni á markað í Hollandi. Hún leitaði nokkurra leiða og hafði mikið fyrir því að fá fund hjá Natudis. Áður en fyrirtækið tók ákvörðun um að taka vöruna í dreifingu sendu þeir hana á rannsóknarstofu þar sem hún var tekin alveg niður í frumeindir. Útkoman var alveg fullkomin, þeir fundu engin aukaefni sem eru í allflestum vörum af þessu tagi. Ég sé að með þessum samningi geta hlutirnir snúist mér í hag. Svo spyrst þetta út og þá veit maður aldrei”, sagði Hrafnhildur Njálsdóttir.