Jubo í Reykjanesbæ: Stefna að því að auka enn vöruúrvalið
Nýjung bættist við í verslunarflóruna á Suðurnesjum þegar Jubo opnaði að Iðavöllum 7 í Reykjanesbæ í síðasta mánuði. Jubo sérhæfir sig í pólskum vörum, aðallega matvöru, en er líka með tímarit og dagblöð.
Vinkonurnar Justyna og Bozena, sem reka Jubo, hafa búið hér á landi í um áratug og sögðu í samtali við Víkurfréttir að þær hafi séð tækifæri til að opna búð hér suður frá því oft hafi verið erfitt og tímafrekt að fara inn í Reykjavík til að fá pólskar vörur.
„Svo er líka gott að koma inn í búð þar sem maður þekkir vörurnar að heiman,“ sagði Justyna og bætti því við að það væri nokkur munur á íslenskri og pólskri matvöru. „Maturinn hér er yfirleitt aðeins sætari en við erum vön. Við viljum frekar að það sé meira kryddbragð af matnum.“
Engum vandkvæðum er bundið að fá flestar vörurnar inn til landsins, en þó eru þær vörur sem innihalda kjöt háðar innflutningsleyfum. Það var þó chillikrydd og karrí sem var næstum því búið að setja strik í reikninginn hjá þeim.
„Gámurinn með öllum vörunum var kominn til landsins og við vorum að fara að ná í hann á föstudegi en þá kom í ljós að það voru vandræði með chilli og karrýkrydd í gámnum og okkur var sagt að við fengjum ekki að leysa hann út fyrr en eftir helgi… og við búin að auglýsa opnun daginn eftir! Búðin var tóm fyrir utan verðmerkingarnar á hillunum. Við náðum samt að klára málið, vorum alla nóttina að raða í hillurnar en gátum svo opnað daginn eftir.“
Reksturinn hefur farið vel af stað, enda er mikill fjöldi Pólverja á svæðinu, en Íslendingar eru sumir farnir að venjast vörum eins og Kaktus ávaxtasafanum og ýmiskonar sælgæti.
„Við stefnum að því að auka úrvalið hjá okkur og ætlum líka að þýða allar merkingar í hillunum til að gera vörurnar aðgengilegri fyrir Íslendinga,“ sagði Justyna að lokum.
VF-myndir/Þorgils