Jólin byrjuð hjá Huldu og Hrafni
„Við hjónin höfum hannað og framleitt jólaóróa úr við og plexígleri síðan 2004. Nýr jólaórói er búinn til á hverju ári og sá nýjasti fyrir 2012 köllum við Jólasnjór,“ segir Hulda Sveinsdóttir hjá Raven Design. Hulda og Hrafn Jónsson, eiginmaður hennar, hafa nýverið flutt fyrirtæki sitt í frumkvöðlasetrið í Eldey á Ásbrú í Reykjanesbæ. Áður voru þau með framleiðsluna inni á heimili sínu en fannst tímabært að flytja framleiðsluna út af heimilinu.
Þau Hulda og Hrafn framleiða mikið af minjagripum ýmiskonar og eru í fjölbreyttu handverki. Nú er hins vegar jólavertíðin hafin og jólasveinar og jólaóróar eiga hug þeirra allan.
„Það eru alltaf miklar vangaveltur eða saga á bak við hvern jólaóróa. Til dæmis vorum við með 2009 Vonarstjörnu árið 2009 til að benda fólki á að horfa fram á við, Ást og englar voru fyrir 2010 til að minna okkur á ástvinina allt um kring. Kærleikur var í fyrra, hvatning til að gefa frekar en að þiggja og í ár er það Jólasnjór. Hvert snjókorn er einstakt, fallegt og spennandi, ekkert snjókorn er eins í heiminum líkt og við mannfólkið, öll erum við sérstök eins og Snjókorn,“ segir Hulda í samtali við Víkurfréttir. Jólaóróarnir eru fáanlegir í við og í plexígleri, með eða án ártals.
Nýtt í ár hjá Raven Design eru jólasveinarnir, þrettán talsins, Grýla, Leppalúði og Jólakötturinn.
„Þetta er tveggja ára undirbúningur sem kemur saman í þesari hönnun. Vinkona okkar, hún Anja, teiknaði þá eftir okkar hugmyndum. Grýla er svolítið ógnandi, Leppalúði töffarinn og Jólakötturinn sérlega illkvittinn að sjá,“ segir Hulda.
Þau Hulda og Hrafn framleiða fjölmargt annað í vinnustofu sinni í Frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þau taka samt hluta af vinnunni með sér heim og klára og ganga frá vörunni heima hjá sér í 100 ára gömlu fjósi sem þau eru að gera upp og búa í í Njarðvík.
„Við hjónin byrjuðum í handverki 1999 en fyrirtækið Raven Design var formlega stofnað 2009. Við sækjum okkar innblástur aðallega til lögunar Íslands og búum til glasabakka, ostabakka, kertastjaka og servíettuhringi, allt í lögun landsins. Að auki gerum við skart úr plexígleri, svo sem hrafnahálsmen, armbönd úr leðri og fleira skemmtilegt,“ segir Hulda.
Vefsíða þeirra er www.ravendesign.is og svo er líka hægt að finna fyrirtækið á www.facebook.com/ravendesign.