Jólaverslunin: Jólatraffíkin á fullt síðustu daga fyrir jól
Guðrún Reynisdóttir hjá Gallerí Keflavík segir að jólaverslunin sé á svipuðum tíma og oft áður, þetta byrji aldrei fyrr en síðustu dagana. „Síðustu 9 dagana er opið lengur en stemningin byrjar svona rétt fyrir jólin. Jólatraffíkin kemur að fullu síðustu daga fyrir jól.“ Guðrún segir að kjólarnir séu alltaf vinsælir fyrir jólin og eins séu stuttbuxur vinsælar hjá ungu steplunum. „Skórnir eru auðvitað sívinsælir, þá erum við að tala um fyllta hæla, breiða hæla og þeir sem eru með svona platform undir.“
Hún segir að sokkabuxur séu að koma sterkar inn í stað leggings sem hafi verið vinsælar undanfarið, þá séu stelpurnar að kaupa þær í öllum regnbogans litum og mynstrum. „Stórir hringir og stórir eyrnalokkar eru rosalega vinsælir og styttri og þykkari hálsmen eru að komast í tísku.“ Guðrún segir að gjafarbréfin séu vinsæl gjöf hjá foreldrum sem ekki viti nákvæmlega hvað börnin vilji og svo fari úlpur að seljast betur svona rétt fyrir jólin.