Jólaverslunin: Jafnvel farin að aukast aftur
„Verslunin fer svipað af stað og undanfarin tvö ár. Ennþá er það svipað og áður, jafnvel að þetta sé farið að aukast aftur“ segir úrsmiðurinn Georg V. Hannah við Hafnargötu. Hann segir að það sem að fari helst í jólapakkana þetta árið séu úr og skartgripir. Einnig eru Handunnir og sérsmíðaðir skartgripir úr gulli og silfri smíðaðir af Eggerti Hannah gullsmið sívinsælir. Svo eru það síðar festar sem eru vinsælar eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.
„Úrin eru svo sívinsæl og hjá dömunum eru það steinsettu úrin og hjá herrunum eru það mest stálúrin, svo erum við að selja mikið af svissneskum úrum sem eru mjög vönduð. Það sem fer mikið í jólapakkann eru síðar silfurkeðjur hjá konunum. Hjá krökkunum eru það nafnahálsmenin sem eru gríðarlega vinsæl og einnig úr og armbönd. Annars erum við með alla flóruna og alla verðflokka í boði,“ segir hann að lokum.