Jólaverslunin: Frábær og persónuleg þjónusta
- segja gestir sem heimsækja jólabæinn Reykjanesbæ fyrir hátíðirnar
Svo virðist sem fólk sæki til Reykjanesbæjar í auknum mæli og geri jólainnkaupin. Hótel Keflavík hefur undanfarin 11 ár boðið upp á ókeypis gistingu á hótelinu gegn framvísun kvittunar upp á a.m.k. 16.800 kr. í einhverri af verslunum bæjarins. Það er að skila sér í auknum heimsóknum en Víkurfréttir heyrðu í ánægðum viðskiptavinum sem nutu jólastemningarinnar í bænum ásamt því að klára að versla. Einnig könnuðum við hvernig jólaverslun hefði gengið þetta árið en nú eru aðeins fjórir dagar til jóla.
Hjónin Rúna Bjarnadóttir og Gísli Norðdahl hafa undanfarin ár sótt Reykjanesbæ heim til þess að versla fyrir jólin en þau eru búsett í Kópavogi. Hjónin gista þá alltaf á Hótel Keflavík og nýta sér tilboð á gistingu. Það tilboð hófst fyrir 11 árum og þau hafa því nýtt sér það allt frá upphafi að einu ári undanskildu. Hjónakornin tóku alltaf dætur sínar tvær með þegar þær voru ungar og þrátt fyrir að þær séu nú orðnar fullorðnar þá koma þær enn með, enda þekkja þær lítið annað en þessa jólahefð sem skapast hefur hjá fjölskyldunni. Rúna sagði í samtali við Víkurfréttir að hér sé þægilegt að versla og komast burt frá ösinni á höfuðborgarsvæðinu. Segir hún að fjölskyldan sæki í sömu verslanir og veitingastaði en þau fara t.d. alltaf á Langbest að borða. Hefur þessi hefð orðið til þess að þau sæki hingað í meira mæli og ekki einungis um jólin. Sérstaklega vildi Rúna koma því áleiðis hve veglegur og góður morgunverðurinn á Hótel Keflavík væri og líkti hún hlaðborðinu við sverustu fermingarveislu. Hún segir að hún reyni nú að benda fólki á höfuðborgarsvæðinu á að hér megi gjarnan gera góð jólainnkaup og mælir hún hiklaust með því við alla.
Ragna Ívarsdóttir hótelstjóri á Hótel Glym í Hvalfirði nýtti sér tilboð Hótel Keflavíkur og ákvað að klára jólaverslunina í leiðinni. Hún var hæstánægð með allar verslanir sem hún heimsótti í Reykjanesbæ og sagði að þjónustan hafi verið frábær og persónuleg í senn. „Það var frábært að versla í rólegheitunum og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að finna bílastæði og standa í stressinu sem oft vill verða á höfuðborgarsvæðinu í kringum jólin,“ sagði Ragna í samtali við Víkurfréttir. Hún segir að framtakið sé til fyrirmyndar og gjarnan mætti láta vita betur af þessu því margir myndu eflaust nýta sér þessa þjónustu.