Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Jólaverslun gekk vel
Föstudagur 29. desember 2006 kl. 15:22

Jólaverslun gekk vel

Jólaverslunin í Reykjanesbæ virðist hafa verið með ágætum þetta árið samkvæmt kaupmönnum sem Víkurfréttir höfðu samband við.

 

Verslun Bræðranna Ormsson var nú í fyrsta sinn með í jólahasarnum í Reykjanesbæ og sagði Páll Fanndal, verslunarstjóri, að gengið hafi verið vonum framar. „Þetta byrjaði á seinna fallinu en þegar það kom á síðustu tíu dögunum varð bara flóðbylgja. Það voru engar sérstakar vörur sem vor að seljast meira en annað. Það voru sjónvörp, myndavélar og heimilistæki eins og ávaxtapressan. Svo virtist fólk bara vera að gera vel við sig um jólin og hafa fé milli handa. Veðrið á Þorláksmessu skilaði líka sínu þar sem allir voru á röltinu og mikil stemning.“

 

Fatabúðin Blend hóf rekstur rétt fyrir jól í fyrra og sagði Davíð Páll Viðarsson, verslunarstjóri, að hann væri mjög ánægður með útkomuna þetta árið. „Ég myndi segja að það hafi verið um 20-30% aukning hjá mér og ég er mjög sáttur við það, það er ekki annað hægt.“ Aðspurður sagði Davíð að ástæðuna mætti eflasut rekja til þess að fleiri væru farnir að þekkja búðina. „Svo var jólalínan hjá Blend mjög flott og vakti mikla lukku og svo er verðið líka hagstætt.“

 

Rúna í Gallery Keflavík var líka ánægð með gengið í ár. „Þetta gekk mjög vel hjá okkur. Salan var svipuð og í fyrra, allavegana ekki minna, en ég er ekki búin að taka saman hversu mikil aukningin var. Salan dreifðist að vísu því búðirnar voru opnar svo marga daga, en svo er yfirleitt þessi sprengja síðustu dagana.“  Rúna bætti því við að á næsta ári mætti endurskoða það að búðir væru opnar alla sunnudaga í aðventunni. „Það er allt í lagi að hafa opið síðasta sunnudaginn fyrir jól, en hinir finnst mér alveg óþarfi.“

 

Verslunin gekk ekki síður hjá stóru verslununum og Gunnar Egil Sigurðsson, annar rekstarstjóra Kaskó, sagðist vera hæstánægður með viðtökurnar. „Þetta var framar vonum hjá okkur og virkilega góð aukning frá því í fyrra. Það er erfitt að setja fingurinn á eitthvað eitt sem veldur, en við vorum með gott úrval af jólavörum, kjöti, sælgæti og nýstárlegu jólaskrauti sem vakti lukku og það var allt að verða búið á Þorláksmessu.“ Gunnar sagði að lokum að törnin hafi byrjað seint eins og fyrri ár, en úr hafi ræst á síðustu dögunum. „Menn eru yfirleitt alltaf stressaðir yfir því hvað jólaverslunin fer seint af stað, en hún kemur alltaf á svipuðum tíma með sama hvellinum.“

 

VF-myndir/pket

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024