Jóhanna Gísladóttir heldur á túnfiskveiðar
Enginn ævintýraljómi yfir þessu - segir Pétur Pálsson hjá Vísi
Jóhanna Gísladóttir GK úr Grindavík hélt til túnfiskveiða frá Grindavík á dögunum. Kvóti skipsins er 37 tonn sem er aukning frá því í fyrra. Þetta er þriðja vertíðin á túnfiski hjá Jóhönnu.
„Veiðin í fyrra var lakari en fyrsta árið miðað við fjölda króka, þó aflinn hafi í heildina orðið meiri. Þá var verð lakara í fyrra en árið áður. Við unnum þetta upp með tvöföldun veiðigetunnar milli ára. Við vorum jafnlegi í fyrra að ná þessum 27 tonnum og við vorum að taka 22 tonnin árið þar áður,“ segir Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík í samtali við kvotinn.is
„Náum við að veiða kvótann okkar allan um 37 tonn gæti þyngd á hverjum fiski verið um 190 kíló að meðaltali upp úr sjó. Þannig gætu þetta orðið langleiðina í 200 fiskar. Verð á fiskinum á uppboðsmarkaðnum í Tókýó liggur á bilinu 5.000 til 10.000 yen kílóið, 9.000 til 18.000 krónur. Í fyrra var skilaverð til okkar um 1.500 krónur á kíló, sem var óvenju lágt. Ef við reiknum nú með að fá 2.000 krónur á kílóið og aflinn verður 30 tonn, erum við að tala um 60 milljónir króna í aflaverðmæti. Það er því enginn ævintýraljómi yfir þessu hvað tekjurnar varðar þó gaman sé á veiðunum þegar vel gengur í góðu veðri,“ bætir Pétur við.