Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Mánudagur 15. október 2001 kl. 09:58

Jenný selur allt nema pylsur og pizzur!

Veitingahúsið Jenný var stofnað árið 1990 undir nafninu Veitingahúsið við Bláa lónið en núverandi eigendur, Jenný Jónsdóttir og Reynir Jóhansson breyttu nafninu fyrir um þrem árum. Þau ráku veitingahúsið undir fyrra nafninu í u.þ.b. ár en breyttu síðan nafninu til aðgreiningar frá veitingastað Bláa lónsins. Reksturinn hefur verið í sömu horfum frá upphafi og engar stórkostlegar breytingar hafa verið gerðar á húsinu. Viðskiptavinum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum og sérstaklega eftir að Baðstaðurinn Bláa lónið opnaði.
„Það kemur mjög mikið af Íslendingum til okkar en einnig talsvert af ferðamönnum“, segir Jenný. Sumrin eru mesti annatíminn á staðnum en síðasta sumar var öðruvísi en verið hefur. Fleiri hópar Íslendinga komu í mat auk þess sem kvöldtraffík var mikil. „Ameríkanar koma einnig mikið til okkar af Vellinum“, segir Jenný en þeir hafa mikið dálæti á fisk- og sjávarréttum staðarins eins og fleiri gestir. „Lambafillet hefur einnig verið mjög vinsælt hjá okkur en það má eiginlega segja að við séum með allt nema pylsur og pizzur.“ Matseðlarnir eru af ýmsum gerðum: grill, a la carte auk þess sem Jenný býður upp á úrval eftirrétta og forrétta. Á tyllidögum hefur oft verið brugðið á það ráð að bjóða gestum upp á ýmiskonar hlaðborð og eru jólahlaðborðin mjög vinsæl hjá Veitingahúsinu Jenný. „Fyrstu pantanirnar í jólahlaðborðið okkar í ár komu í júlí“, segir Jenný en jólahlaðborðið byrjar 17. nóvember og stendur í mánuð. Í fyrra komust færri að en vildu í jólahlaðborð og var gripið til þess ráðs að fjölga dögum auk þess sem þau leigðu Festi í Grindavík. „Það kom okkur svolítið á óvart að það er ágætt að gera flest kvöld. En laugardagarnir standa upp úr.“ Staðurinn býður upp á sæti fyrir 120 manns og er ráðlegt að panta sæti á helgum. Þá hefur einnig verið boðið upp á veisluþjónustu og er ennþá laust bæði í kaffi og mat um fermingarnar í vor.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024