„Jákvæð breyting fyrir viðskiptavini og starfsfólk“
„Við erum afskaplega ánægð að vera komin á nýjan stað og ég er sannfærður um að þetta verður jákvæð breyting bæði fyrir viðskiptavini útibúsins og starfsmenn þess,“ segir Einar Hannesson, útibússtjóri í Reykjanesbæ.
Landsbankinn opnaði í gær nýtt og glæsilegt útibú í Krossmóa 4a í Reykjanesbæ. Þangað flyst öll starfsemi útibúsins sem áður var á Tjarnargötu í Keflavík og í afgreiðslu á Grundarvegi í Njarðvík. Öll þjónusta útibúsins er á fyrstu hæð hússins en á annarri hæð er starfsemi bakvinnslu sem tilheyrir höfuðstöðvum bankans og einnig mötuneyti starfsmanna.
Afgreiðslur bankans í Sandgerði og í flugstöð Leifs Eiríkssonar tilheyra útibúinu sem fyrr. Yfir 90 manns starfa hjá Landsbankanum á Suðurnesjum, þegar útibúið í Grindavík er meðtalið.
Nýja útibúið er hannað með það að leiðarljósi að gera þjónustuna í senn fjölbreyttari og nútímalegri. Ýmsar nýjungar líta dagsins ljós bæði á skipulagi og tækni sem nýtast munu viðskiptavinum vel.
Aðalverktaki vegna framkvæmdanna var Bragi Guðmundsson og fyrirtæki hans. Flestir sem að verkefninu komu, þ.á m. smiðir, rafvirkjar, málarar og pípulagningamenn eru heimamenn.
Ný tegund hraðbanka
Í útibúinu verður ný tegund hraðbanka sem býður upp á fjölda nýrra möguleika í sjálfsafgreiðslu. Í hraðbankanum verður veitt öll helsta þjónusta sem gjaldkerar veita, fyrir utan kaup og sölu gjaldeyris. Þar verður m.a. hægt að leggja inn á bankareikninga eða taka út reiðufé af öllum reikningum.
Öll aðstaða fyrir viðskiptavini er til fyrirmyndar, boðið er upp á þráðlaust net og aðgengi að tölvum. Svo tekur Sproti vel á móti börnunum í Sprotalandi.
Athygli er vakin á því að bankanúmer útibúsins, 0142, er óbreytt og sömuleiðis breytast reikningsnúmer ekki.
Nýtt aðsetur Landsbankans í Reykjanesbæ er í þessu húsi við Krossmóa 4a.