Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 21. júlí 2000 kl. 20:17

Ítalskt yfirbragð á Ránni

Veitingastaðurinn Ráin í Keflavík verður með ítalska daga sem hefjast næstkomandi fimmtudag og munu standa til 7. ágúst. Boðið verður upp á hefbundna en jafnframt spennandi ítalska matargerðarlist eins og hún gerist best þar í landi. Ítalskur matreiðslumeistari, hr. Luca Fasoli, kemur gagngert hingað til lands til að hafa umsjón með kynningunni og verður sérstakur gestakokkur á Ránni næstu tvær vikur. Hr. Fasoli er afar virtur matreiðslumeistari í sínu heimalandi þar sem hann starfar við vinsælan veitingastað við Gardavatn. Hann hefur skrifað fjölda matreiðslubóka bæði fyrir almenning og fyrir skóla. Þá kemur hann reglulega fram í einum vinsælasta matreiðsluþætti í sjónvarpi á Ítalíu. Síðan 1992 hefur hann kennt við virtan hótel- og ferðaþjónustuskóla í Bardolino sem heitir Luigi Carnacina. Fasoli, sem er að koma til Íslands í fyrsta sinn segir að það sé mikilvægt að koma fólki í skilning um að ítalskur matur sé ekki bara pizzur og pasta. „ítölsk matargerðarlist er í stöðugri þróun og er mismunandi eftir svæðum í landinu. Það sem ég mun gera hér, er að taka það besta frá hverju svæði og setja það saman á glæsilegan og spennandi hátt fyrir gesti okkar hér á Ránni“. Meðal þess sem verður boðið upp á má nefna bakaðan lax með basilíke, gufusoðið nautakjöt polenta, og nýstárlegan rétt sem nefnist spjót fiskimannsins sem samanstendur af 5 fisktegundum sem eru grillaðar og reiddar fram með sérstakri kryddsósu. Boðið verður upp á ítalskt hádegishlaðborð fimmtudag og föstudag. Sérstakur ítalskur kvöldmatseðill verður síðan frá og með föstudagskvöldi. Á föstudags- og laugardagskvöld verður matargestum boðið upp á sérstaka vínkynningu á vel völdum ítölskum víntegundum frá Pasqua.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024