Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Viðskipti

  • Íslensk gjafavara gríðarlega vinsæl
    Lovísa og Ólöf Kristín með hluta starfsmanna sinna.
  • Íslensk gjafavara gríðarlega vinsæl
Laugardagur 19. september 2015 kl. 06:31

Íslensk gjafavara gríðarlega vinsæl

– Rammagerðin og 66°Norður verslanir heilla útlendinga og Íslendinga

Eitt elsta fyrirtækið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er Rammagerðin sem rekur sögu sína þar til ársins 1970. Verslunin er afar vinsæl, bæði meðal útlendinga og Íslendinga en hún opnaði ásamt 66°Norður verslun í flugstöðinni í sumar í nýju 440 fermetra rými. Íslenskar handunnar vörur eru mjög vinsælar, allt frá lyklakippum og lopapeysum til hins þekkta og vinsæla 66°Norður fatnaðar. Frá árinu 2012 hefur verslunarrýmið tvölfaldast.  
 
Rammagerðin var hluti af verslun Íslensks Markaðar sem var við lýði í langan tíma í flugstöðinni. „Áherslan er lögð á íslenskt handverk og hönnun og afurðir frá Íslendingum, alls staðar af landinu, og er handverk frá Suðurnesjum þar í hávegum haft,“ segir Lovísa Óladóttir, framkvæmdastjóri og Keflavíkurmærin Ólöf Kristín Sveinsdóttir, verslunarstjóri, tekur undir það. Í verslununum tveimur sem eru saman í þessu stóra rými starfa um 25 manns, nær allir frá Suðurnesjum, á vöktum, enda er opnunartíminn langur.“


 
Mikið lagt upp úr fjölbreytileika
Lovísa segir að mikið sé lagt upp úr fjölbreyttu vöruúvali í Rammagerðinni og þar sé íslenska lopavaran mjög vinsæl. „Gærur, peysur, teppi og ýmsar smávörur,“ segir hún með áherslu og bendir á að samfara aukningu ferðamanna gefist aukin tækifæri fyrir handverksfólkið, tálgarann og bílskúrsmanninn. Með meiri viðskiptum geta þessir framleiðendur gert vöruna sína verðmætari, merkt hana betur, pakkað henni betur og þannig í heildina gert hana að betri markaðsvöru. Við hjálpum oft til við þetta þróunarferli, eigum samstarf við hönnuðina og handverksfólkið,“ segir Lovísa.
 
Útlendingar eru áhugasamir um íslenska sögu og menningu. „Allar vörur sem við seljum hafa einhverja íslenska tengingu þó þær séu ekki allar framleiddar hér á landi en ullin er okkar sérstaða í Rammagerðinni. Fyrirtækið er stofnað 1940 og það hefur alltaf lagt áherslu á íslensku ullina og íslenskar ullarafurðir. Hér á árum áður voru tískusýningar á fatnaði úr íslensku ullinni. Við höldum mikið í þessa sögu. Hún er rík og við höldum henni til haga. Mikil þróun á undanförnum árum í hönnunarvöru á Íslandi endurspeglast einnig í vöruvalinu.“


 
Klassísk gjafavara
Íslendingar eru líka góðir viðskiptavinir í Rammagerðinni. „Þeir vita að við erum með lægra verð vegna þess að það er ekki virðisauki á vörum í flugstöðinni. Sum vara sem við erum að selja t.d. íslensku ullarteppin eru klassísk gjafavara. Okkur hefur vaxið fiskur um hrygg með keramikið og ýmis konar listhandverk og eftir því sem fleiri eru tilbúnir að selja vöruna sína hér hjá okkur þá myndast meiri breidd.

Varðandi útlendinginn þá er lopapeysan gríðarlega vinsæl, sem og vettlingar og húfur. Þetta „flýgur út“ í orðsins fyllstu merkingu. Bolir með merkingu frá Íslandi seljast líka vel. Vörur tengdar gosinu í Eyjafjallajökli eru mjög vinsælar. Það er magnað hvað þetta eldgos gerði.“
 
Tenging við íslenska hönnuði
Hvernig gengur ykkur að tengja ykkur við hönnuði hér heima?
„Við gerum það með ýmsum hætti. Við fylgjumst vel með, skoðum öll handverkshús sem við komumst í og svo erum við með nefnd í því að velja inn vörur. Við leggjum áherslu á góða þjónustu, fallegar framstillingar og gott samstarf við alla okkar birgja. Við fáum fyrirspurnir frá mörgum framleiðendum og handverksfólki vegna þess að þegar fólk kemur inn í búðirnar okkar og skoðar úrvalið kveikir það í þeim. Við berum mikla virðingu fyrir vörunni sem við seljum, þetta sér fólk. Allar verslanir okkar eru vel staðsettar og eru nýuppgerðar, líka á Akureyri og í Reykjavík. Svo sækjum við auðvitað handverkshátíðir í Reykjavík og á Akureyri, grípum hugmyndir þar og tengjum okkur við handverksfólk.“


 
Rætur í sjávarútveg
Fyrirtækið Miðnesheiði rekur verslanir Rammagerðarinnar og 66°Norður. „Við þessa stækkun í sumarbyrjun jukum við úrvalið af 66°Norður vörum í versluninni og bjóðum nú uppá mikla breidd af þessari vinsælu vöru, virðisaukanum ódýrari en í öðrum 66°Norður verslunum. Vöruþróun er stór þáttur í starfsemi  66°Norður. Þetta er allt íslensk hönnun, hver einasta flík og ber hróður íslenskrar hönnunar út um allan heim. Hönnun 66°Norður hluta verslunarinnar ber merki þess að fyrirtækið á rætur að rekja í sjávarútveginn. Borðin vísa til frystihúsa þar sem fiskurinn var snyrtur og veðramerkin vísa til íslenska veðurfarsins sem fatnaður 66°Norður ver okkur fyrir.“

Hefur þetta ekki verið magnað sumar í flugstöðinni?
„Jú, reyndar á öllum stöðum hjá okkur, á Akureyri, Reykjavík og í flugstöðinni. Sumarið er búið að vera mjög gott,“ segir Lovísa að lokum.

Public deli
Public deli