Íslendingar ekki lengur fjölmennastir í FLE
Auknar flugsamgöngur til Bretlands hefur valdið miklum breytingum á vægi íslenskra og breskra farþega á Keflavíkurflugvelli.
Íslendingar hafa hingað til verið langstærsti farþegahópurinn á Keflavíkurflugvelli. Þetta sýna mánaðarlegar talningar Ferðamálastofu á þjóðernum farþega sem ná aftur til ársins 2002. Í síðasta mánuði urðu hins vegar þau tímamót að hátt í tvö þúsund fleiri Bretar en Íslendingar flugu frá landinu. Bresku farþegarnir voru 22.820 talsins og fjölgaði þeim um 42,9 prósent í samanburði við febrúar í fyrra. Íslendingarnir voru 21.261. Farþegar sem aðeins millilenda í Keflavík eru ekki taldir með. Túristi.is greinir frá þessu.
Fjórða hver ferð til London
Flug til höfuðborgar Bretlands hefur tvöfaldast síðustu tvö ár og er nú flogið þangað fjörtíu sinnum í viku. Í síðasta mánuði fór til að mynda fjórða hver þota héðan áleiðis til London samkvæmt talningu Túrista. Við þetta bætist flug til Manchester, Glasgow, Edinborgar og Bristol og alls eru ferðinar til Bretlands því 54 á viku eða hátt í átta á dag.
Áframhaldandi ferðagleði
Þó Íslendingar séu ekki lengur stærsti hópurinn sem nýtir sér Keflavíkurflugvöll þá hefur ferðum landans til útlanda fjölgað í hverjum mánuði síðan í september í fyrra. Það sem af er ári hefur utanlandsferðunum fjölgað um 6,2 prósent samkvæmt því sem kemur fram á vef Ferðamálastofu.