Íslandsflug þýsku félaganna gekk vel
Forsvarsmenn German Wings og Lufthansa eru mjög sáttir við sölu á Íslandsferðum nýliðið sumar. Íslendingar eru þó lítill hluti farþeganna. Vefurinn Túristi.is greinir frá þessu.
„Við erum virkilega ánægð með að hafa náð nærri 90 prósent sætanýtingu í sumar", segir Christian Schindler, framkvæmdastjóri hjá Lufthansa í samtali við Túrista um Íslandsflug félagsins. Hann segir meirihluta farþeganna hefja ferðalagið í Þýskalandi og Lufthansa leggi þannig ferðaþjónustunni á Íslandi lið.
Fleiri ferðir
Næsta sumar reiknar Schindler með að ferðum milli Berlínar og Reykjavíkur verði fjölgað. En Lufthansa flaug hingað frá þremur þýskum borgum í sumar sem leið. Hann á þó ekki von á því að félagið bæti Íslandi við sem áfangastað yfir veturinn því það séu aðallega ferðamenn sem ferðast til landsins en ekki fólk í viðskiptaerindum.
Unnu kapphlaupið um Köln
Talsmaður lággjaldaflugfélagsins German Wings, sem er dótturfyrirtæki Lufthansa, tekur í sama streng og segir að flug félagsins milli Reykjavíkur og Kölnar í sumar hafi gengið mjög vel. Hann segir þó of snemmt að segja til um hversu margar ferðir German Wings muni fljúgja til Íslands á næsta ári.
Iceland Express og WOW air lentu bæði í basli með flug sitt til Kölnar í sumar og þurftu sameina ferðir þangað með flugi til annarra borga líkt og kom fram hér á síðunni. Það þarf því ekki að koma á óvart að Köln er ekki á sumardagskrá félaganna á næsta ári. German Wings situr því eitt að flugleiðinni líkt og það gerði áður.
Airberlin heldur áfram
Síðustu sumur hefur Airberlin verið það félag sem flogið hefur til Íslands frá flestum borgum. Í fyrra voru þær sex talsins og segir talskona félagsins að nú styttist í að sala á sumarferðum félagsins til Reykjavíkur hefjist. Hún vill þó ekki gefa upp hversu margir áfangastaðirnir verða næsta sumar.