Isavia semur við HS Orku um hleðslustöðvar
Fulltrúar Isavia og HS Orku hafa skrifað undir samning um uppsetningu á fjölda hleðslustöðva fyrir rafbíla á Keflavíkurflugvelli. Um langtímaverkefni er að ræða. Nýjar hleðslustöðvar verða fyrir farartæki Isavia og annarrar rekstraraðila á vellinum og einnig fyrir starfsfólk fyrirtækjanna en auk þess verða eldri hleðslustöðvar uppfærðar eða þeim skipt út. Nýju stöðvarnar verða allt að 100 AC hleðslustöðvar og allt að 10 DC hraðhleðslustöðvar.
Samkvæmt samningnum sér HS Orka um uppsetningu og viðhald hleðslustöðvanna sem Isavia leigir af félaginu. Þá heldur HS Orka einnig utan um notkun hleðslustöðvanna og hvernig hún skiptist milli aðila. Samningurinn er gerður á grundvelli verðfyrirspurnar sem gerð var á útboðsvef Isavia í byrjun þessa árs.
„Við hjá Isavia erum afar ánægð að hafa náð þessu samkomulagi við HS Orku,“ segir Gunnar Ingi Hafsteinsson, deildarstjóri bílastæðaþjónustu hjá Isavia. „Um langtímaframkvæmd er að ræða og þegar henni er lokið verðum við komin með nýjar hleðslustöðvar fyrir farartæki starfsfólks og fyrirtækja á flugvallarsvæðinu. Þetta hjálpar okkur að ná markmiði okkar um kolefnaleysi í eigin rekstri á Keflavíkurflugvelli fyrir árið 2030.“
Gunnar Ingi segir að fyrsta verkefnið samkvæmt samningnum verði að uppfæra hraðhleðslustöðvar sem fyrir séu fyrir farþega á P2 skammtímastæðum flugvallarins komu megin. Því næst verði skipt út þeim hleðslustöðvum á svæðinu sem þarfnist uppfærslu. Síðan verði ráðist í uppsetningu nýrra stöðva fyrir starfsfólk og fyrirtæki. Framtíðarskrefið sé svo að bæta rafhleðslu fyrir farþega.
„Við hjá HS Orku erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi með Isavia,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku. „Að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað hjá Isavia og um leið bjóða lausnir sem auka aðgengi að hleðslustöðvum er mikilvægt verkefni. Isavia er að gera gangskör í hleðslumálum hjá sér og við vonum að notkun rafbíla muni enn aukast hjá starfsmönnum og rekstraraðilum í framhaldi af þessu.“