Isavia hefur afhent Kaffitári gögnin
Isavia hefur afhent Kaffitári gögn er tengjast forvali um samkeppni til reksturs verslana og veitingastaða í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Á vef Isavia kemur fram að gögnin hafi verið boðsend í morgun á skrifstofu Kaffitárs þar sem tekið var við þeim. Þar segir jafnframt að Samkeppniseftirlitið hafi varað við því að afhending gagnanna, sem og viðtaka, gæti verið brot á samkeppnislögum og því hafi hendur Isavia eru bundnar í þessu máli þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur hafi úrskurðað að afhenda bæri gögnin.
Samkeppniseftirlitið hafði beint þeim tilmælum til Isavia og Kaffitárs að leita allra mögulegra leiða til að veita Kaffitári aðgang að þeim upplýsingum sem gera félaginu kleift að gæta að réttarstöðu sinni án þess að sú upplýsingamiðlun gangi svo langt að samkeppni væri raskað. Í því skyni bauð Isavia Kaffitári að lögmenn félaganna settust yfir gögnin og fyndu leið til að verða við tilmælum Samkeppniseftirlitsins. Því hafnaði Kaffitár, samkvæmt frétt á vef Isavia. Þá kemur þar fram að Isavia hafi alla tíð haldið því fram að óeðlilegt væri að afhenda þriðja aðila viðkvæm gögn um rekstur og áætlanir samkeppnisaðila og að Samkeppniseftirlitið taki undir það í bréfi sínu.
Nánar má lesa um málið á vef Isavia.