Innistæður sparifjáreigenda tryggðar
Ríkisstjórnin hefur sent frá sér tilkynningu þar sem ítrekað er að innistæður sparifjáreigenda séu tryggðar. Yfirlýsingin er svohljóðandi: „Ríkisstjórn Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem áréttað er að innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu.
Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“
Björgvin G. Sigurðsson segir að þetta sé afdráttarlaus árétting ríkisstjórnarinnar um að Íslendingar þurfi ekki með neinum hætti að óttast um sínar innistæður, þar með talið séreignalífeyrissparnað hér á landi, því ríkisvaldið muni bæta það að fullu, ef á reynir. „Þetta er afdráttarlaus yfirlýsing sem við óskum eftir að liggi frammi hjá öllum gjaldkerum útibúa, fólk er í mikilli óvissu og við viljum gera allt til að eyða henni. Almannahagsmunir ganga fyrir og eru tryggðir með þessu,“ segir Björgvin.