Inga Birna ráðin framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos
Keflvíkingurinn Inga Birna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjá vefhönnunarfyrirtækinu Kosmos & Kaos í Reykjanesbæ. Inga Birna starfaði áður sem framkvæmdastjóri og aðstoðarforstjóri flugfélagsins WOW air og í stjórnunarstöðum hjá Icelandair, Flugfélagi Íslands og 365 miðlum.
Hún hefur áralanga reynslu af rekstri, er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Inga Birna er einnig varamaður í stjórn Íslandsstofu og hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum síðastliðin ár.
„Þetta er spennandi tækifæri, ég hlakka mikið til að vinna með hæfileikaríku fólki hjá Kosmos & Kaos og taka á móti nýjum áskorunum í leiðinni. Rekstur Kosmos & Kaos hefur gengið mjög vel, tækifærin eru okkar og við ætlum að grípa þau,“ segir Inga Birna í tilkynningu.
Starfsmenn Kosmos & Kaos eru nú 12 talsins en fyrirtækið var stofnað fyrir fjórum árum og hefur á því tímabili hannað og forritað vefi fyrir mörg stærstu og framsæknustu fyrirtæki landsins.