Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Illa verðmerkt í gluggum sérverslana á Reykjanesi
Föstudagur 30. október 2009 kl. 14:52

Illa verðmerkt í gluggum sérverslana á Reykjanesi

Dagana 15., 19. og 20. október síðastliðinn voru verðmerkingar í Reykjanesbæ og Grindavík kannaðar af Neytendastofu. Farið var í 70 fyrirtæki, 38 sérverslanir, fimm matvöruverslanir, þrjá stórmarkaði með sérvöru, tvö bakarí, níu hársnyrtistofur, þrjár snyrtistofur, sex bensínstöðvar og fjögur hjólbarðaverkstæði.


Áberandi var hve illa verðmerkt var í gluggum sérverslana, segir í tilkynningu frá Neytendastofu. Af þeim 19 verslunum sem voru með sýningarglugga, voru einungis fimm með verðmerkingar í lagi, það voru Cool Accessories, Fjóla, Innanlands, Ormsson og SI verslun. Það er athyglisvert þegar haft er í huga að 36 af 38 verslunum, eða 95%, voru með verðmerkingar í lagi inni í verslununum. Hefur verðmerkingum í glugga hrakað mikið frá síðustu könnun sem gerð var í desember 2008, þá voru 15 af 21 verslun, eða 72%, með verðmerkingar í glugga í lagi, nú hefur það hlutfall snúist við og 74% verslana er ekki að merkja vörur í sýningarglugga sem skyldi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fimm matvöruverslanir voru heimsóttar og voru verðmerkingar í nokkuð góðu lagi í þremur þeirra, 10-11, Bónus og Þinni verslun í Reykjanesbæ. Nettó í Reykjanesbæ og Grindavík fengu hins vegar 10 athugasemdir af þeim 50 vörutegundum sem teknar voru og borið saman hillu- og kassaverð á, einnig voru verðmerkingar ekki fullnægjandi í þessum verslunum.


Í stórmörkuðum með sérvöru voru teknar 25 vörutegundir og borið saman hillu- og kassaverð, af þeim þremur stórmörkuðum sem skoðaðir voru í könnuninni komu byggingavöruverslanirnar Byko og Húsasmiðjan best út. Aftur á móti fékk verslunin Hagkaup-sérvara áminningu um að laga samræmi hillu- og kassaverðs í verslun sinni þar sem gerðar voru athugasemdir við sjö vörur af þeim 25 sem voru skoðaðar. Þessar verslanir eru allar staðsettar í Reykjanesbæ.


Farið var í tvö bakarí, Hérastubb Grindavík og Kornið Reykjanesbæ, þar var skoðað hvort verðmerkingar í kæli, borði og öðrum söluborðum/hillum væri í lagi, voru verðmerkingar til fyrirmyndar á báðum stöðum eins og í síðustu könnun sem gerð var í desember 2008.
Verðmerkingar hjá hársnyrtistofum og snyrtistofum komu nokkuð vel út, tíu stofur af tólf voru með verðmerkingar í góðu lagi bæði á söluvörum og á þjónustu. Þær tvær hárgreiðslustofur sem fengu athugasemdir við verðmerkingar voru Art-hús og Lokkar og línur Reykjanesbæ.
Verðmerkingar á bensínstöðvum höfðu lítið breyst milli kannanna, farið var á tvær stöðvar með fulla þjónustu, Olís í Grindavík og Reykjanesbæ. Samræmi hillu- og kassaverðs var þokkalegt en það vantaði nokkuð upp á verðmerkingar í kæli hjá Olís í Grindavík og í verslun hjá Olís í Reykjanesbæ. Merkingar utandyra á eldsneyti voru í lagi á öllum sex stöðvunum.


Einnig var skoðað hvort hjólbarðaverkstæði væru með verðskrá yfir helstu þjónustuliði sýnilega, tvö verkstæði af fjórum voru með þetta í lagi, Hjólbarðaverkstæði Grindavíkur og Bílar og hjól Reykjanesbæ. Hin tvö verkstæðin, Nesdekk og Smur- og hjólbarðaþjónustan Reykjanesbæ, þurfa að bæta úr þessu sem fyrst. Sent verður bréf á þau fyrirtæki sem ekki voru með verðmerkingar í lagi og því svo fylgt eftir með annarri eftirlitsferð.


Neytendastofa mun halda áfram verðmerkingaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri fyrirtækjum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni rafraen.neytendastofa.is.