IGS fær umhverfisvottun
Flugþjónustufyrirtækið IGS ehf. hefur fengið umhverfisstjórnunarkerfi sitt vottað í samræmi við ISO 14001 staðalinn. IGS er þar með í hópi fyrstu Icelandair Group fyrirtækja til að fá umhverfisvottun, en það er opinbert markmið Icelandair Group að öll dótturfélög þess hafi fengið ISO 14001 vottun fyrir árslok 2016. Áður hafa Icelandair hótelin Marina, Natura, Akureyri og Hérað fengið ISO 14001 vottun.
ISO 14001 er alþjóðlegur staðall sem tilgreinir kröfur sem eiga að gera fyrirtækjum kleift að þróa og innleiða stefnu og markmið í umhverfismálum með hliðsjón af umhverfisþáttum, lagalegum kröfum svo og öðrum kröfum sem kunna að eiga við. Kjarni staðalsins er að með stöðugum umbótum sé sífellt dregið úr umhverfisáhrifum bæði fyrirtækinu og samfélaginu til góða.
Það var íslenska vottunarstofan Vottun hf. sem tók út umhverfisstjórnunarkerfi IGS út á dögunum og staðfesti að starfsemi þess samræmist kröfum staðalsins, segir í tilkynningu.